Jakob J. Thorarensen ­ Minning Fæddur 1. febrúar 1903 Dáinn 4. maí 1989 Okkur langar með fáeinum orðum að minnast frænda okkar Jakobs Jóhanns Thorarensen, Kobba eins og hann var alltaf kallaður. Hann fæddist 1. febrúar 1903, í Ármúla við Ísafjarðardjúp, sonur hjónanna Elísabetar Ingunnar Bjarnadóttur og Ólafs Thorarensen, sem þá bjuggu í Ármúla og síðar í Reykjarfirði.

Um Kobba mætti margt segja, sem aðrir gætu tekið sér til fyrirmyndar.

Um tveggja ára aldur veiktist hann mjög hastarlega, en fram að þeim tíma var hann hið mesta efnis barn.

Strax þegar Kobbi varð veikur fór móðir hans með hann á sjúkrahúsið á Ísafirði og dvaldi þar með hann um lengri tíma. Álitið var að hann hefði fengið heilahimnubólgu, og varð hann aldrei heill heilsu eftir það. Kobbi vissi sitt ástand miklu gleggra en fjöldann grunaði, en var samt alltaf kátur og glaður og hvers manns hugljúfi. Kobbi var mjög söngelskur, fljótur að læra lög og ljóð, og hafði yndi af allri hljómlist.

Síðustu árin dvaldi Kobbi í sjúkrahúsi Hólmavíkur og naut þar hlýju og góðrar umönnunar, og færum við forstöðukonu sjúkrahússins sérstakar þakkir fyrir alla þá vinsemd og hlýju, sem hún sýndi Kobba alla tíð.

Nú þegar við kveðjum Kobba, þökkum við honum liðnar samverustundir, og biðjum honum Guðsblessunar.

Ég fel í forsjá þína,

Guð faðir, sálu mína,

þín veri vernd í nótt.

Um ljósið lát mig dreyma

og ljúfa engla geyma

öll börnin þín, svo blundi rótt.

(M. Joch.)

Bodda og Imma