Guðrún Sigurðardóttir ­ Kveðjuorð Fædd 15. júlí 1907 Dáin 7. maí 1989 Aðeins nokkrar kveðjulínur til að minnast vinkonu minnar Guðrúnar Sigurðardóttur með þakklæti fyrirað eiga svo mikinn þátt í að gera bernsku mína ríkari en ella hefðiverið. Ég gekk um heimili hennar eins og kötturinn Himmelíus um árabil. Þar var enginn dyrasími og vinir og vandamenn komu og fóru eins og hluti af heimilisfólkinu. Þeir nutu ómældrar gestrisni, hlýju og hinnar léttu kímni sem ríkti þar. Sem uppalandi var Guðrún einstök. Ekkert nöldur eða skammir en maður var fljótur að bæta úr ef maður sá að henni mislíkaði. Á hinn bóginn dugði aldrei minna en fyrstu verðlaun ef við krakkarnir gerðum viðvik. Í mínum augum sem barns veitti heimili Guðrúnar öryggi og ánægju og virtist vandamála laust. Það hefur þó varla verið þarsem hún var ekkja og 5 barna móðir auk þess sem hún vann fulla vinnu utan heimilisins. Fari hún í friði.

Kristín Kristinsdóttir