Minning: Þórður Gíslason, Hafnarfirði Góður nágranni hefur verið kallaður yfir móðuna miklu. Hann átti við erfiðan sjúkdóm að stríða og vitað var að hverju stefndi, endaþótt það kæmi ekki fram í tali, þegar við hittumst að máli.

Þórður Gíslason, sem flestir þekktu sem Þórð á Hvaleyri, lést 7. maí 1989. Hann var Árnesingur að ætt, fæddur 28. apríl 1911 að Hólum í Stokkseyrarhreppi. Foreldrar hans voru hjónin Guðfinna Sigurðardóttir og Gísli Jónsson er þar bjuggu. Þau fluttu að Hvaleyri við Hafnarfjörð árið 1915 og stunduðu þar búskap á meðan kraftar leyfðu. Þórður ólst upp í stórum hópi systkina en alls voru þau tíu og náðu átta þeirra fullorðins aldri en tvö létust ung. Þórður kvongaðist Ingibjörgu Bjarnadóttur 20. desember 1941. Hún er ættuð frá Neskaupstað en foreldrar hennar voru hjónin Guðrún Friðbjörnsdóttir frá Þingmúla á Héraði og Bjarni Sveinsson frá Viðfirði.

Þórður og Ingibjörg keyptu húsið að Suðurgötu 62, sem þá var ný byggt og stofnuðu þar heimili sitt og hafa ávallt búið þar síðan. Börnþeirra voru fimm. Tvíburar sem dóu ung en hin eru Guðfinnur Gísli og Bjarni Rúnar, sem báðir eru tæknifræðingar og Hrafnhildur sem er viðskiptafræðingur. Öll er þau mesta efnisfólk og hafa stofnað sín eigin heimili og eru barnabörnin sex.

Þórður starfaði um tíma hjá Áætlunarbílum Hafnarfjarðar en lengst af stundaði hann vörubifreiðaakstur. Það gerðu sumir bræðra hans einnig og unnu þeir mikið saman og um mörg ár seldu þeir og fluttu sand til húsbygginga og var viðbrugðið dugnaði Hvaleyr arbræðra því oftast þurfti að moka sandinum á bílana með handverkfærum. En það brást ekki að sandurinn kæmi á tilsettum tíma.

Þórður var mikið ljúfmenni, traustur og hjálpsamur. Hann var snyrtimenni í allri umgengni, sívinnandi við að þrífa og laga bílana það sem með þurfti eða hlúa að húsinu. Voru þau hjónin mjög samhent í því að prýða í kringum sig og var fagurt að líta vel ræktaðan og blómum skrýddan garðinn þeirra. Þórður var mikill fjölskyldumaður og barnabörnin voru kærkomin í heimsókn eða til lengri dvalar ef með þurfti af einhverjum ástæðum.

Með Þórði er góður maður genginn. Góður og traustur vinur. Burtför hans breytir svipmóti götunnar okkar, ljúfi og glaðlegi maðurinn er horfinn. Hann var einn þeirra manna sem mat og virti góðar dyggðir eins og trúmennsku, skyldurækni og heiðarleika. Það er mannbætandi að kynnast og eiga slíka samferðamenn. Við flytjum Þórði þakkir og biðjum honum blessunar guðs á nýjum vegum. Eftirlifandi konu hans og fjölskyldu flytjum við innilegar samúðarkveðjur.

Páll V. Daníelsson

Prentun þessarar greinar í blaðinu í gær misfórst. Er hún því birt á ný og beðist velvirðingar á mistökunum.