Stefán Valgeirsson, formaður bankaráðs Búnaðarbankans: Ég mun aldrei samþykkja raunvaxtahækkun STEFÁN Valgeirsson, formaður bankaráðs Búnaðarbankans, segir að þótt bankaráð bankans hafi samþykkt 1% hækkun á raunvöxtum í síðustu viku sé ekki þar með sagt...

Stefán Valgeirsson, formaður bankaráðs Búnaðarbankans: Ég mun aldrei samþykkja raunvaxtahækkun

STEFÁN Valgeirsson, formaður bankaráðs Búnaðarbankans, segir að þótt bankaráð bankans hafi samþykkt 1% hækkun á raunvöxtum í síðustu viku sé ekki þar með sagt að hann hafi samþykkt hana. Stefán segist aldrei munu samþykkja raunvaxtahækkun. Hann setti það sem eitt af skilyrðunum fyrir stuðningi sínum við ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar að hún kæmi raunvöxtum niður íað minnsta kosti 6% fyrir 1. janúar síðastliðinn.

"Hver hefur sagt að ég samþykki hana?" sagði Stefán er hann var spurður hvort það væri ekki í ósamræmi við yfirlýsta stefnu hans að samþykkja raunvaxtahækkun. "Þetta er lýðræðislegt bankaráð og það þarf ekki nema meirihluta til að samþykkja hlutina. Það segir ekkert hvort ég eða einhverjir aðrir hafi samþykkt hana. Ef einhverjum dettur í hug að ég hafi samþykkt svonalagað, er það vegna þess að þeir fylgjast ekki með málunum."

"Það liggur ljóst fyrir að raunvaxtahækkun myndi ég aldrei samþykkja. Hins vegar eigum viðað sjá um að bankinn sé ekki rekinn með tapi þegar til lengri tíma er litið. En það er allt annað mál. Raunvextir voru taldir nægjanlegir fyrir 10 árum þegar svokölluð Ólafslög voru sett. Þá voru umræður um það að raunvextir mættu aldrei verða meiri en 2-3%. Nú eru þeir upp undir 10% hjá til dæmis einkabönkunum," sagði Stefán.