EFTA-EB: Fyrstu merki um samstarf í menntamálum "Ástæða til að fylgjast grannt með samræmingu náms í EB," segir Sólrún Jensdóttir FJÖRKIPPUR er nú kominn í samstarf Fríverslunarbandalags Evrópu (EFTA) og Evrópubandalagsins (EB).

EFTA-EB: Fyrstu merki um samstarf í menntamálum "Ástæða til að fylgjast grannt með samræmingu náms í EB," segir Sólrún Jensdóttir

FJÖRKIPPUR er nú kominn í samstarf Fríverslunarbandalags Evrópu (EFTA) og Evrópubandalagsins (EB). Samskiptin fara vaxandi dag frá degi og nú er í uppsiglingu fyrsta samkomulag bandalaganna tveggja um samstarf á sviði menntamála. Mikill áhugi er á sem mestu samstarfi innan EFTA og því að búa sig sem best undir fyrirsjáanlega samræmingu í skólamálum innan EB. Enn sem komið er eru þó engar reglur í gildi hjá EB sem torvelda námsmönnum frá EFTA-ríkjum aðgang að háskólum í EB. Liður í auknu samstarfi bandalaganna á þessu sviði er sú ákvörðun menntamálaráðherra EB frá 22. maís.l. að veita EFTA-ríkjum aðgang að áætlun sem nefnist Comett og lýtur að nýjungum á sviði rannsókna og tækni.

Nokkuð hefur verið rætt um það hérlendis að æ erfiðara sé fyrir íslenska námsmenn að fá inngöngu í háskóla í Evrópubandalaginu. Sólrún Jensdóttir, skrifstofustjóri í menntamálaráðuneytinu, segist hafa heyrt dæmi þess að íslenskum námsmönnum hafi reynst erfitt að fá inngöngu í skóla í Evrópubandalaginu. Sólrún hefur athugað hvaða reglur gilda um þessi efni hjá EB og í höfuðstöðvum bandalagsins í Brussel fást þau svör að engar slíkar reglur séu fyrir hendi sem torvelda íslenskum námsmönnum að komast inn í háskóla þar. Hins vegar segir Sólrún aukna samræmingu náms liggja í loftinu innan EB og full ástæða sé til að vera á varðbergi og fylgjast grannt með því að háskólar lokist ekki fyrir íslenskum námsmönnum.

Sólrún á sæti í menntamálanefnd EFTA, sem undanfarið hefur átt viðræður við embættismenn EB. "Hing að til hefur lítið gerst annað en það að EFTA-löndin hafa lýst áhuga á þátttöku í tveimur verkefnum á vegum EB, Comett-áætluninni, um nýjungar á sviði rannsókna og tækni, og Erasmus, sem fyrst fremst er ætlað að auðvelda stúdentaskipti. Undirtektir hafa verið jákvæðar í orði hjá EB en ekkert hefur verið formlega samþykkt fyrr en núna 22. maí að menntamálaráðherrar EB samþykktu að EFTA-ríki gætu fengið aðild að Comett-áætluninni."

Að sögn Sólrúnar er það nú undir hverju EFTA-ríki komið hvort af þátttöku í áætluninni verður. "Miðað við skilmálana varðandi þátttöku Íslands í rammasamningi um samstarf við EB á sviði rannsókna og þróunar, þar sem gildir að við borgum til sjóðsins í hlutfalli við þjóðarframleiðslu, þá ætti kostnaður við aðild að Comett að vera óverulegur," segir Sólrún. Hún tekur þó fram að enn sé mikil vinna eftir við að útfæra samkomulag EB og EFTA um þetta mál.

Reuter