Ásgerður jonsdottir Í fáum línum viljum við, bræðurnir á Hólaveginum, kveðja elskulega ömmu okkar, sem í dag verður til moldar borin frá Dalvíkurkirkju. Á kveðjustund er margs að minnast, en það sem fyrst og fremst kemur upp í hugann er þakklæti og hlýhugur í garð Ásu ömmu, einsog við kölluðum hana ætíð. Amma var fædd í Hrísgerði í Fnjóskadal, en fluttist til Dalvíkur árið 1916. Enda þótt 73 yrðu árin sem hún bjó á Dalvík, var römm taugin til æskuslóðanna, og talaði hún einkar fallega um bernskudaga sína fyriraustan heiði. Lífshlaup ömmu minnir um margt á þau tré sem prýða sveitina hennar fyrir austan, þau vaxa og dafna, og halda sínu striki, þó á þeim brjóti öldur vatna og vinda, og síðast en ekki síst, veita vernd og skjól.

Þrátt fyrir eril og önn dagsins lét hún félagsmál til sín taka. Hún starfaði með kvenfélaginu og vann ötullega að byggingu kirkjunnar á staðnum. Hennar starfsvettvangur var fyrst og fremst á heimilinu og það sem hún lagði af mörkum til umfangsmikillar útgerðar bónda síns. Sú árverkni og athygli í málefnum útgerðar fylgdi henni til hinstu stundar. Það var með ólíkindum hvað hún vissi og mundi glöggt um aflabrögð og gengi skipaflota Dalvíkinga. Því voru það góðar stundir og eftirminnilegar þegar amma fræddi okkur um liðna tíma, og bar gjarnan saman við það sem búið er við í dag, og gladdist yfir framgangi og því sem til betri vegar horfði. Og það var engin hálfvelgja í hennar orðum, hún gat verið hvöss í orðum, enda þótt undir slægi heitt og kærleiksríkt hjarta. Það fylgdi henni reisn og höfðingsskapur og hafði hún til að bera ást og umhyggju á öllu því sem lífsand ann dró. Og þess nutu gestir og gangandi og allir hennar afkomendur í ríkum mæli. Hún var gjöfull veitandi í efnalegum og andlegum efnum.

Að lokum kveðja börn okkar, Ragnheiður, Þórir Örn, María og Júlíus og fjölskyldur, ástríka ömmu og vin.

Blessuð sé minning mætrar konu.

Sigvaldi, Kristján Þór

og Ásgeir Páll.