PÁLL Ólafsson varði doktorsritgerð í hagnýtri efnisfræði álmelma við Konunglega Tækniháskólann í Stokkhólmi KTH 7. nóvember sl. Í doktorsverkefninu er lýst varmafræðilíkani til að reikna út styrk og seygju álmelma út frá efnasamsetningu og hitameðhöndlun og var útreiknaður styrkur borinn saman við mældan styrk.
FÓLK Doktor í hagnýtri efnisfræði álmelma

PÁLL Ólafsson varði doktorsritgerð í hagnýtri efnisfræði álmelma við Konunglega Tækniháskólann í Stokkhólmi KTH 7. nóvember sl. Í doktorsverkefninu er lýst varmafræðilíkani til að reikna út styrk og seygju álmelma út frá efnasamsetningu og hitameðhöndlun og var útreiknaður styrkur borinn saman við mældan styrk. Í doktorsverkefninu er í fyrsta skipti sýnt fram á að styrking álmelma er eingöngu háð magni og stærð herðandi agna sem myndast við hitameðhöndlun.

Þróaður var gagnagrunnur til útreikninga á varmafræðilegu jafnvægisástandi melmanna sem síðan var notaður með varmafræðiforriti til að reikna út magn herðandi agna sem fall af efnasamsetningu, hitastigi og hitameðhöndlunartíma. Með aðstoð fræða um víxlhrif veila og herðandi agna var styrkaukningunni lýst sem falli af stærð og fjölda agnanna. Líkanið gerir því kleift að áætla styrk melmisins út frá hitastigi og efnasamsetningu, sem sparar tilraunavinnu við hönnun nýrra efna eða bestun núverandi framleiðsluferla. Líkanið er byggt á nýjum efnagreiningum á herðandi ögnum sem eru aðeins um nokkur þúsund atóm að stærð og hafa á síðustu tveimur árum verið efnagreindar með meiri nákvæmni en áður með tilkomu nýrrar tækni. Niðurstöður doktorsverkefnisins benda til þess að hámarks styrkur í áli með magnesíum og kísil fáist ef hlutfall magnesíum og kísils er í kringum 1,1 í stað 2 eins og áður var talið. Þessar niðurstöður eru staðfesting á hinum nýju efnagreiningum agnanna. Líkanið hefur verið notað til að áætla styrk áls eftir suðu að gefinni efnasamsetningu og til að finna heppilegustu efnasamsetningu fylliefnis.

Doktorsverkefnið var unnið í samvinnu við og að frumkvæði álfyrirtækisins Gränges Technology Centre í Svíþjóð. Aðalleiðbeinendur voru Rolf Sandström, prófessor og Åke Karlsson prófessor, andmælandi var Öystein Grong prófessor (NTH Noregi), og dómnefnd var skipuð Bo Sundman prófessor (KTH), dr. Torsten Ericsson (LiTH) og dr. Bo Bengtsson (Gränges). Andmælandi við licentiatvörnina var Göran Grimvall prófessor (KTH).

Páll Ólafsson fæddist 19. júní 1957 í Reykjavík, sonur hjónanna Ólafs Pálssonar verkfræðings og Önnu Sigríðar Björnsdóttur píanókennara. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1978, stærðfræði og eðlsifræði við Háskóla Íslands 1979­1982 og M.Sc. gráðu í eðlisverkfræði frá Tækniháskólanum í Lundi 1986. Vann á Raunvísindastofnun Háskólans 1985­1986 við geislanema, var verkefnisstjóri á Iðntæknistofnun Íslands frá 1986­ 1991 við efnisfræði stáls, efnisprófanir og rafeindasmásjáraðstöðu og stundakennari í efnisfræði við HÍ. Undanfarin fimm ár hefur Páll verið fastráðinn á deild fyrir hagnýta efnisfræði við Konunglega tækniháskólann í Stokkhólmi við kennslu í hagnýtri efnisfræði og efnisvali og við rannsóknir. Hann lauk licentiatprófi í hagnýtri efnisfræði frá KTH 1995. Páll er kvæntur Elínborgu Guðmundsdóttur augnlækni og eiga þau þrjú börn.