Stöð221.00 Gamall heimilisvinur allra landsmanna, sjálfur J.R. (Larry Hagman) úr Dallas-sápunni leikstýrir sjónvarpsmyndinni Hver var Geli Bendl? (Who Was Geli Bendl?, '94), sjónvarpsmynd soðinni uppúr lögregluþáttunum In the Heat of the Night.


SUNNUDAGSMYNDIR SJÓNVARPSSTÖÐVANNA

Stöð 2 21.00 Gamall heimilisvinur allra landsmanna, sjálfur J.R. (Larry Hagman) úr Dallas-sápunni leikstýrir sjónvarpsmyndinni Hver var Geli Bendl? (Who Was Geli Bendl?, '94) , sjónvarpsmynd soðinni uppúr lögregluþáttunum In the Heat of the Night. Eftir nafninu að dæma virðast þeir soðnir uppúr samnefndri hörkugóðri löggumynd um þeldökkan lögreglumann (Sidney Poitier), New York-búa, sem sendur er niður í Suðurríkin til aðstoðar hvítum starfsbróður sem Rod Steiger lék með slíkum tilþrifum að hann hlaut fyrir Óskarsverðlaunin. Soðningin fer leynt. Sjónvarpið 22.10 Breska sjónvarpsmyndin Ástarsetrið (Loving, '95) gerist árið 1941. Aðalpersónurnar, þjónustufólk á írskum herragarði, "þar sem lostinn ræður ríkjun", samanber kynningu. Virðist aðeins útí blátt. Leikstjóri er Diamuid Lawrence en þau Mark Rylance og Georgina Cates fara með aðalhlutverkin. AMG gefur hálffullt hús stjarna; Stöð 2 23.25 Sagan af Qiu Ju (The Story of Qiu Ju, '92) . Sjá umfjöllun í ramma. Sýn 23.25 Gamanmyndin Í fullu fjöri (Satisfaction, '88) , með Justine Bateman, Liam Neeson og Juliu Roberts, fær ekki háa einkunn hjá okkur AI í Myndbandahandbókinni. 1991. "Rómantík og hljómleikahald bílskúrsrokkbands sem telur fjórar stelpur og einn strák. Þau þrauka af sumarið á búlu Liams Neesons í ferðamannabæ. Andlaust og laglaust. Ástarævintýri Batemans og Neesons með lygilegri samdráttum kvikmyndasögunnar." Þá höfum við það, enda hæpið að þetta rokkdrama hafi skánað með aldrinum. Sæbjörn Valdimarsson

Sagan af Qiu Ju

Stöð 2 23.25 Enn og aftur býðst okkur að slást í för með hinu frábæra, kínverska kvikmyndagerðarfólki, leikstjóranum Zhang Yimou og leikkonunni Gong Li, í miskunnarlausri skoðunarferð þeirra um Kína eftir kommúnismann. Sagan af Qiu Ju '92 lýsir baráttu ungrar, vanfærrar konu (Gong Li) við alræði kommúnista í Kína. Hún flytur mál eiginmanns síns frammi fyrir flokksvélinni eftir að hann hefur verið tugtaður til af yfirvöldum. Þessi beinskeytta og einfalda saga er ábúðaminnst á yfirborðinu af seinni verkum Yimous en jafnframt það áhrifamesta. Gong Li hefur aldrei verið betri en sem almúgakonan sem má heyja sína þrautagöngu á milli hinna ýmsu embættismanna kerfisins. Myndin hefur unnið til fjölda verðlauna á alþjóðlegum vettvangi, m.a Gullna ljónið í Feneyjum og Gong Li var kjörin besta leikkona ársins á sömu hátíð. Sæbjörn Valdimarsson