BRESKA stjórnin hefur í reynd afnumið námsskrána í skyldufögum í enskum og velskum skólum fyrir 5-11 ára börn, 10 árum eftir að stjórn Íhaldsflokksins kom henni í framkvæmd. David Blunkett, atvinnu- og menntamálaráðherra, segir að frá og með september næstkomandi ráði hver skóli hvað kennt sé í sögu, landfræði, hönnun og tækni, listum, tónlist og íþróttum.
Bretar afnema námsskrá 5-11 ára barna

Auka kennslu í lestri,

skrift og reikningi

London. Reuters.

BRESKA stjórnin hefur í reynd afnumið námsskrána í skyldufögum í enskum og velskum skólum fyrir 5-11 ára börn, 10 árum eftir að stjórn Íhaldsflokksins kom henni í framkvæmd.

David Blunkett, atvinnu- og menntamálaráðherra, segir að frá og með september næstkomandi ráði hver skóli hvað kennt sé í sögu, landfræði, hönnun og tækni, listum, tónlist og íþróttum.

Blunkett lagði þó áherslu á, að nemendur myndu áfram njóta góðrar undirstöðumenntunar þar sem jafnvægis gætti. Hann sagði að námsskráin væri afnumin í þágu tilrauna til að bæta námsárangur. Þar sem hún væri nú úr sögunni væri ekki lengur hægt að halda því fram að nemendur fengju ekki nægan tíma til að læra lestur, skrift og reikning.

Blunkett boðaði einnig breytingar á námsskrá í ensku, stærðfræði og vísindum 14 ára og eldri grunnskólanema eftir hálft þriðja ár. Sagði hann að einnig hún yrði nánast lögð niður.

Í bréfi til um 20.000 skólastjóra útskýrir Blunkett afnám námsskrárinnar með þeim hætti að hann hafi ákveðið að losa skólana úr "spennitreyju" skrárinnar svo þeir geti varið meiri tíma til að kenna lestur og skrift og reiknikúnstir. Eftir sem áður yrði skólum skylt að kenna vísindi, tölfræði og trúarbragðafræði.