FYRIRTÆKIÐ Norðan Jökuls hefur boðið skoðunarferðir frá Egilsstöðum síðustu fimm sumur. Tvö síðustu sumur hefur aðallega verið um dagsferðir að ræða í samstarfi við Tanni Travel á Eskifirði. Í sumar unnu við þessar ferðir níu leiðsögumenn sem spurðu hvern farþega um þjóðerni og skráðu í dagbók.
Upplýsingar úr austfirskri ferðaþjónustu FYRIRTÆKIÐ Norðan Jökuls hefur boðið skoðunarferðir frá Egilsstöðum síðustu fimm sumur. Tvö síðustu sumur hefur aðallega verið um dagsferðir að ræða í samstarfi við Tanni Travel á Eskifirði. Í sumar unnu við þessar ferðir níu leiðsögumenn sem spurðu hvern farþega um þjóðerni og skráðu í dagbók.

Það gæti skipt máli fyrir framkvæmdaglaða Austfirðinga að vita á hvaða dögum mest er um að vera vegna ferðamanna. Ef til vill rennur einnig upp eitthvert samhengi fyrir landsmenn á öðrum svæðum. Á meðfylgjandi töflum má sjá niðurstöður síðasta sumars miðað við þá sem keyptu skoðunarferðir frá Egilsstöðum

Samkvæmt umræddri könnun síðasta sumar er sláandi hve fáir ferðamenn leituðu sér afþreyingar á mánudögum. Flestir fóru á miðvikudegi en það tengist líklega því að ferjan fer frá Seyðisfirði morguninn eftir. Þá kemur sumarbústaðarfólk flest á föstudegi í vikudvöl á Héraði og leitar ef til vill afþreyingar seinni part dvalarinnar. Fimmtudaga þarf að skoða með það í huga að 21 af þeim 33,5 sem fóru þá voru Norðmenn, sem flestir höfðu keypt ferðina í pakka með annarri afþreyingu hér á landi. Því miður er líklegt að fólk með þennan pakka komist ekki í fimmtudagsferðina næsta sumar, sökum þess hvað ferjan mun þá lenda seint á Seyðisfirði. Tíminn verður of stuttur eftir að ferjan kemur þangað til að fólk heldur áfram ferðinni norður í átt að Akureyri eða suður í átt að Hornafirði.

Þar sem hálfur farþegi kemur fram, sýnir það tilboð sem nokkrir nýttu sér, þ.e. að stíga út eða í á miðri leið. Á hinn bóginn fóru sumir í fleiri en eina ferð, enda veittist afsláttur til þess.

Norðan Jökuls og Tanni Travel fóru í sumar á mánudögum og þriðjudögum til Borgarfjarðar, á miðvikudögum til Snæfells auk þess sem farinn var Fljótsdalshringur sem og á fimmtudögum. Föstudaga, laugardaga og sunnudaga var aftur farið til Snæfells. Til þess að ná meiri þátttöku næsta sumar er m.a. fyrirhugað að fara Fljótsdalshring í stað ferðar til Borgarfjarðar á mánudögum og sleppa á móti Fljótsdalshring á miðvikudögum.

Alla daga er hægt að koma fljúgandi frá Reykjavík um morguninn og fljúga aftur þangað um kvöldið, og einhverjir nýta sér hagstæð tilboð í flugi þannig. Í meðfylgjandi töflum eru ekki taldir með hópar sem pöntuðu sérferðir hjá Norðan Jökuls/Tanni Travel auk þess að Tanni Travel setti fleiri langferðir á markað.

Tölurnar hér gefa sjálfar til kynna að dagsferðirnar ná ekki að skila gróða, þó vitaskuld sé stefnt að betri útkomu í framtíðinni. Undirritaður telur mikilvægt að komið verði á áætlunarferðum snemma dags frá Egilsstöðum til Mývatns/Akureyrar og til Hornafjarðar. Útlendingar benda á að þeir veigri sér við að dvelja á Egilsstöðum og í nágrenni því áætlunarbílar koma um kl. 13 og fara um kl. 15. Sökum þess þarf fók að eyða tíma hér seinni hluta komudags og fyrri hluta brottfarardags ef það á að ná hér heilum degi, til dæmis til ferðar niður á firði. Það gefur auga leið að sumir telja skynsamlegast að halda strax áfram sama daginn eftir tveggja klukkutíma bið frekar en að slíta tvo daga í sundur í kringum einn eða fleiri heila daga hér á Miðausturlandi. Kannski munu lækkandi flugfargjöld bæta úr þessu, þegar fólk söðlar um af rútum yfir á flugvélar milli landshluta, en þó verður alltaf vænn hópur sem vill skoða allan hringveginn frá jörðinni.

Fréttir úr ferðamannaþjónustunni herma að illa hafi gengið í stuttum, skipulögðum skoðunarferðum á Íslandi í sumar, nema helst í hvalaskoðunarferðum. Hjá Norðan Jökuls/Tanni Travel varð sáralítil aukning frá fyrra sumri. Þjóðverjum fækkaði talsvert þó að þeir væru ennþá mikilvægasti hópurinn. Á hinn bóginn fjölgaði Íslendingum, sem sumarið 1996 töldust aðeins 10% farþega í þessum dagsferðum. Sumarið 1997 mættu 29,5 Íslendingur sem er um 20% af heildarfjöldanum. Aðeins Þjóðverjar voru fjölmennari, eða 31. Það er ánægjulegt að sjá að heimamenn vilja í ríkari mæli kynnast landi sínu undir leiðsögn.

Philip Vogler. Höfundur er eigandi Norðan Jökuls, Egilsstöðum

FJÖLDI ferðamanna kemur með Norrænu til Seyðisfjarðar á hverju sumri. Þetta fólk hélt upp á 100 ára afmæli bæjarins sumarið 1995 en fyrir miðri mynd er gamli skólinn á Seyðisfirði.

Philip Vogler.