PÖNKHÁTÍÐ hefur verið haldin í Norðurkjallara Menntaskólans við Hamrahlíð í upphafi hvers árs undanfarið. Svo verður og að þessu sinni, því fyrirhuguð er hátíðin Pönk 98 23. janúar næstkomandi.
Áframhaldandi stuð og gleði PÖNKHÁTÍÐ hefur verið haldin í Norðurkjallara Menntaskólans við Hamrahlíð í upphafi hvers árs undanfarið. Svo verður og að þessu sinni, því fyrirhuguð er hátíðin Pönk 98 23. janúar næstkomandi. Umsjónarmenn Pönks 98 eru liðsmenn Örkumls, sem er í hópi þeirra sveita sem halda pönkinu á lofti og segja að framundan sé "áframhaldandi stuð og gleði". Tónleikarnir hefjast um níuleytið og standa til eitt, en fram koma tíu hljómsveitir; Saktmóðigur, Örkuml, Kuml og Forgarður helvítis, en einnig hafa boðað komu sína Kúkur og Roð. Aðrar sveitir eru óráðnar. Þeir Örkumlsmenn segjast muni kynna ný lög sem verði á væntanlegri breiðskífu þeirra, Saktmóðigur leiki væntanlega ný lög og vísast verði eitthvað nýtt á ferðinni hjá flestum sveitanna. Þeir félagar segja að pönkið lifi góðu lífi sem tónlistarform, en hugsjónin sé komin að fótum fram; "það er erfitt að reyna að lifa sem anarkískur pönkari í nútíma þjóðfélagi, en tónlistin lifir og mun lifa. Við erum þó ekki að reyna að vera eitt eða neitt, þetta er bara útkoman af því sem við höfum verið að glamra og mætti eins kalla rokk eins og pönk. Við erum öðrum þræði að nota þessa yfirskrift, Pönk 98, til að gera grín að þeim sem vilja setja merkimiða á allt og alla. Pönkið snerist mest um það að gera hlutina sjálfur; að vera frjáls og gera það sem maður vill og það á reyndar við um alla tónlist." Þeir félagar segja að það skipti þá engu hvernig menn vilji flokka tónlistina og því megi eins kalla það pönk. Þegar þeir síðan komi fram undir þessari yfirskrift kalli það á þá sem eru ef til vill að fást við svipaða tónlistarsköpun. "Það getur vitanlega vel verið að það komi líka afdankaðir límhausar, en þeir eru velkomnir; pönkarar frá 78 eru velkomnir á Pönk 98 líkt og aðrir sem hafa gaman af pönki." Morgunblaðið/ Pönkarar Skipuleggjendur Pönks 98.