VINSÆLDIR útvarpsstöðvarinnar Radio 101 meðal almennings í Zagreb sannaðist í nóvember 1996, þegar á annað hundrað þúsunda manna söfnuðust saman í miðborg króatísku höfuðborgarinnar og mótmæltu áformum stjórnvalda um að loka stöðinni.

Prófsteinn tjáning-

arfrelsis í Króatíu

Natasa Babic er fréttastjóri á króatísku útvarpsstöðinni Radio 101 sem hlaut frægð um víða veröld er stjórnvöld reyndu að loka henni haustið 1996. Kröfuganga 120.000 borgara í Zagreb og mikill þrýstingur erlendis frá tryggðu tilvist stöðvarinnar, sem nú hefur loks fengið formlegt rekstrarleyfi. Auðunn Arnórsson náði tali af Babic er hún dvaldi hér yfir hátíðirnar.

VINSÆLDIR útvarpsstöðv arinnar Radio 101 meðal almennings í Zagreb sannaðist í nóvember 1996, þegar á annað hundrað þúsunda manna söfnuðust saman í miðborg króatísku höfuðborgarinnar og mótmæltu áformum stjórnvalda um að loka stöðinni. Þetta var mesta fjöldasamkoma í landinu frá því það varð sjálfstætt 1991. Þegar þetta gerðist var haft eftir fréttaskýrendum að þeir teldu þessi miklu viðbrögð almennings til marks um að hann væri orðinn þreyttur á "einræðistilburðum Franjo Tudjmans forseta." Radio 101 væri "táknræn fyrir óánægjuna".

Rúmlega ári eftir þessa atburði var á ferð hér á landi fréttastjóri Radio 101, Natasa Babic. Blaðamaður Morgunblaðsins fékk hana til að útskýra hvað valdi þessari sérstöðu útvarpsstöðvarinnar, hvernig ástatt væri um tjáningarfrelsið í Króatíu og stjórnmálalífið almennt, sem Franjo Tudjman og stjórnmálahreyfing hans, HDZ, ber enn ægishjálm yfir.

Babic var fyrst fengin til að skýra stuttlega frá sögu stöðvarinnar.

"Það var ungliðahreyfing júgóslavneska kommúnistaflokksins sem stóð að stofnun Radio 101 árið 1984. Útvarpsstöðin var upprunalega ætluð ungu fólki; meginmarkmið hennar var að veita ungum Júgóslövum afþreyingu.

Mjög fljótlega tileinkaði stöðin sér sinn eigin stíl, sína eigin nálgun að því sem fjallað var um hverju sinni. Um miðjan níunda áratuginn var Radio 101 vinsælasta og sennilega bezta útvarpsstöðin sem nokkru sinni starfaði í gömlu Júgóslavíu. Hún tileinkaði sér mjög vel vestræn viðmið og vinnubrögð. Ég tel hana hafa verið einstaka í sinni röð í gervallri Austurblokkinni," segir Babic, sem sjálf slóst í hóp starfsmanna stöðvarinnar um það leyti sem borgarastríðið í gömlu Júgóslavíu hófst 1991, en áður vann hún hjá króatíska sjónvarpinu.

Stíl stöðvarinnar segir hún vera helztu ástæðana fyrir því að hún hefur jafnan orðið fyrir aðkasti ráðamanna, sem ekki hefur enn linnt. "Við erum úthrópuð sem "ameríkaníseraður lýður" bæði vegna tónlistarinnar sem við spilum og vegna málnotkunar okkar. Við tölum mjög óformlegt mál og slettum þónokkuð enskum eða amerískum orðum. En það er ekki vegna þess að við séum "ameríkaniseraðri" en aðrar þjóðir Evrópu; þetta er spurning um þjóðfélagslega þróun sem á sér stað alls staðar, jafnvel í Frakklandi svo dæmi sé nefnt."

En þessa gagnrýni á Radio 101 segir Babic vera mjög hræsnisfulla. Tilfellið sé að í hvert sinn sem Króatía þurfi á stuðningi að halda erlendis frá leiti ráðamenn landsins til Bandaríkjanna, hvort sem um er að ræða kaup á herþyrlum eða læknismeðferð fyrir forsetann. En þegar útvarpsstöð er gefinn stimpillinn "ameríkaníseruð" er það gert í neikvæðum tilgangi.

Nutum umbrotatímanna

"Með árunum tókst okkur að flytja fréttir á okkar eigin, sjálfstæðu forsendum. Við nutum þess að starfa á miklum umbrotatímum," segir Babic. "Ráðamenn höfðu um margt annað veigameira að fást við en litla útvarpsstöð. Frá því sjónarhorni vorum við heppin. Og hvað varðar fréttamennskusjónarmið almennt þá höfðum við sem þarna störfuðum einstakt tækifæri til að fylgjast náið með einhverri dramatískustu atburðarás sem átt hefur sér stað eftir lok síðari heimsstyrjaldar í Evrópu."

Sérstöðu Radio 101 segir Babic felast fyrst og fremst í því að hún sé eina stöðin af 10 útvarps- og sjónvarpsstöðvum í Króatíu, sem ekki sé stjórnað beint eða óbeint af stjórnarflokknum HDZ. Það hafi einmitt verið þessi sérstaða, sem hafi valdið hinum sterku viðbrögðum almennings þegar stjórnvöld gerðu tilraun til að loka stöðinni.

Haustið 1996 þjörmuðu stjórnvöld í Zagreb að stöðinni og ætluðu að loka henni með því að banna henni útsendingar og gefa annarri stöð, sem aðeins var til á pappírnum og átti að vera fullkomlega á valdi HDZ, leyfi til útsendinga á tíðni Radio 101. Þá söfnuðust um 120.000 borgarar á aðaltorg borgarinnar í mótmælaskyni og stöðinni varð bjargað.

"Ég held að þetta hafi verið ein heimskulegasta ákvörðun sem ráðandi flokkurinn í Króatíu hefur tekið," segir Babic. "Ég tel hana bera vott um einstaklega slaka dómgreind. Almennt séð var þetta mjög heimskulegt skref, því þeir fengu ekkert annað út úr þessu en skömm í hattinn."

Vernd Bandaríkjamanna

En eitt athyglisvert atriði hefur þróazt upp úr þessu, segir Babic. "Ástæðan fyrir því að við fengum hálfgildings leyfi til að starfa áfram unz við fengum loks formlegt rekstrarleyfi fyrir tveimur mánuðum, er að mínu mati ekki aðeins vegna þess að 120.000 manns fóru í kröfugöngu heldur aðallega vegna mjög ákveðinnar afstöðu bandaríska utanríkisráðuneytisins. Þrýstingur Bandaríkjamanna á króatísk stjórnvöld að láta Radio 101 óáreitt hafði mjög mikið að segja. Bandaríska sendiráðið í Króatíu hefur haldið verndarhendi sinni yfir stöðinni. Að einu leyti er það mjög ánægjulegt, en samtímis er það sorglegt: Að þurfa á erlendri vernd að halda til að geta starfað í eigin heimalandi!"

Reyndar segir hún stöðu stöðvarinnar vera allbreytta núna, þar sem formlegt rekstrarleyfi hefur loks fengizt. "En það er alveg ljóst í mínum huga," segir hún, "að til þess hefði ekki komið nema fyrir hinn afdráttarlausa stuðning Bandaríkjamanna."

Stöðin varð eins konar prófsteinn tjáningarfrelsisins í Króatíu, að minnsta kosti frá sjónarhóli Bandaríkjamanna. Þáverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Warren Christopher, nefndi stöðina sérstaklega á nafn í ræðum þar sem talið barst að Króatíu og Al Gore lét hana heldur ekki ónefnda er hann hitti Tudjman forseta að máli.

Um það leyti sem stjórn hans ætlaði að "skrúfa fyrir" Radio 101 fyrir fullt og allt síðla hausts 1996 var Tudjman sjálfur í læknismeðferð við krabbameini í Bandaríkjunum. En hver er staða hans í króatískum stjórnmálum eins og er?

Vill sætta ólík öfl

"Franjo Tudjman er pólitísk staðreynd í Króatíu, sem ekkert kemur í staðinn fyrir," segir Babic. Hann hafi unnið kosningar með yfirburðum og það leiki enginn vafi á því að hann njóti mikils stuðnings hjá almenningi. "Hins vegar tel ég að hann eigi skilið að vera gagnrýndur allhart fyrir þá stjórnarstefnu sem hann rekur," segir hún.

"Hann er dæmigerður fulltrúi sinnar kynslóðar. Hann var kommúnisti, hershöfðingi og sagnfræðingur. Hann lifir að miklu leyti í fortíðinni. Það er mikilvægt fyrir króatískan stjórnmálamann, en það sem mest þörf er á núna er ákveðin framtíðarsýn, sem hann skortir að mínu mati," segir Babic.

Meginmarkmið Tudjmans í stjórnmálum segir Babic vera að sameina alla þjóðina, að höfða til allra hinna mismunandi hópa þjóðfélagsins, í því skyni að flokkur hans beri nafnið "þjóðarhreyfing" með rentu.

"Tudjman leggur sig mjög fram um að fylgja þessu markmiði eftir, en að mínu mati er það ekki vænlegt til árangurs að ætla að þvinga fram þjóðarsátt með þessum hætti. Á dögum síðari heimsstyrjaldar og í kjölfar hennar geisaði borgarastríð í Króatíu, milli þeirra sem studdu Ustasha-hreyfinguna sem stóð að leppstjórn nazista og hinna sem börðust með skæruliðum kommúnista eða studdu þá," segir Babic.

Tudjman sé að reyna að sætta syni Ustasha-stjórnarinnar og syni skæruliða kommúnista. "Ég held að honum takist þetta illa. Með því að reyna að þröngva á friði milli hinna látnu er hann að espa upp ósætti milli hinna sem lifa."

Gott dæmi um þetta segir Babic vera áform Tudjmans um að gera Sinowac, stærstu fangabúðirnar í Króatíu þar sem fjöldi gyðinga og Serba voru drepnir á tímum heimsstyrjaldarinnar, að sameiginlegu minnismerki um alla þá sem létu lífið í styrjöldinni, það er hvort tveggja Serba, gyðinga, kommúnista og aðra sem létu lífið í búðunum, sem og um þá Króata sem létu lífið í þjónustu Ustasha-hreyfingarinnar, sem voru böðlar hinna fyrrnefndu. Þetta segir Babic minna mjög á það sem Francisco Franco gerði á Spáni með hinum svonefnda "Dal hinna dauðu", þar sem grafnir eru hlið við hlið kommúnistar, lýðveldissinnar og fasistar.

Takmörk tjáningarfrelsisins

"Í tengslum við þetta mál get ég nefnd gott dæmi um hvernig ástatt eru um tjáningarfrelsið í Króatíu," segir Babic. "Kollegi minn, sem ritstýrir frjálsasta prentfjölmiðli Króatíu að mínu mati, Herald Tribune í Zagreb, skrifaði grein um þetta Sinowac-mál undir yfirskriftinni "Bein í blöndunarvél".

Þessi skrif öfluðu honum alvarlegra afskipta réttarkerfisins. Að króatískum lögum fær hver sá sem telst hafa "móðgað forsetann" sjálfkrafa á sig ákæru frá ríkissaksóknara. Þegar málið var tekið fyrir á fyrsta dómstigi sýknaði dómarinn hann, sem var mjög hugrökk ákvörðun af dómarans hálfu því hann var skipaður í sitt embætti af HDZ, sem hefur vald yfir öllum stöðuveitingum í landinu. En hæstiréttur fyrirskipaði að réttað skyldi upp á nýtt í málinu, ritstjórinn gæti ekki sloppið svo auðveldlega. Í framhaldi af þessu fór dómarinn fram á það við spænsk stjórnvöld að þau útveguðu honum ítarlegri upplýsingar um "Dal hinna dauðu" áður en hann gæti fellt dóm í málinu. Það sem dómarinn er að gera með þessu er að teygja málið á langinn í þeirri von að það lognist út af. Á þessu sést hvaða takmörkum tjáningarfrelsið er háð í Króatíu," segir Babic.

Frelsismat "Freedom House"

Óháð stofnun í Washington, Freedom House að nafni, gerir árlega úttekt á því hve frjáls hin ýmsu þjóðfélög heims séu. Löndin sem úttektin nær yfir eru flokkuð í þrjá meginflokka, frjáls samfélög, takmarkað frjáls og ófrjáls. Öll lönd Vestur-Evrópu eru flokkuð sem frjáls. Króatía og Slóvakía eru einu ríkin í Mið- og Austur-Evrópu sem fá stimpilinn "takmarkað frjáls". Þetta mat byggir á mati á frelsi í stjórnmálalífi, tjáningarfrelsi og hvort um sé að ræða átök af þjóðernis- eða trúarástæðum.

"Í úttekt Freedom House á króatísku samfélagi eru spurningamerki sett við alla þessa þætti," segir Babic. Segir hún stofnunina leggja sérlega mikið upp úr því að króatísk stjórnvöld fylgi ekki í raun eftir því sem kveðið sé á um í stjórnarskrá og löggjöf landsins, sem samkvæmt bókstafnum eiga að tryggja réttindi hvers og eins.

"Ég held að þessi útkoma sé nokkuð nærri lagi, mat Freedom House sýnist mér vera gert af sanngirni," segir Babic. "Ég tel skýrslur af þessu tagi koma að gagni sem vísbending um hvar við erum stödd og hjálpa til við að setja þrýsting á stjórnvöld. Evrópuráðið og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) hafa líka lagt mikið af mörkum til að þrýsta á um umbætur."

Babic segir að innan HDZ starfi ekki eingöngu alræðissinnaðir þjóðernissinnar; þar sé að finna skynsamt og hæft fólk, sem sé viljugt til að taka tillit til ábendinga um hvað aflaga hafi farið og hvert beri að stefna. "Ég er bjartsýnismanneskja. Ég trúi því að eftir áratug um það bil verði króatískt samfélag orðið nokkurn veginn "eðlilegt"," sagði Babic að lokum.Morgunblaðið/Kristinn Eina útvarpsstöðin sem stjórnarflokkurinn hefur ekki á valdi sínu

Tudjman reynir að sætta "syni fasista" og "syni kommúnista"