Hjálmar Ragnar Hjálmarsson Þegar Ragnar Hjálmarsson er allur rifjast óneitanlega upp hjá mér góðar minningar um viðfelldinn samferðamann. Það er ekki langt síðan hann lagði hönd að verki ótrauður sem jafnan fyrr. En svo skjótt getur illvígur sjúkdómur lagt mann að velli að sá sem fyrir stuttu síðan sá örugg handtök hans stendur orðlaus og undrandi. En við brottför vinar verður efst í huga þakklæti fyrir aðstoð við verkefni, skemmtilegar samræður þar sem alvara og gaman áttu samleið. Og svo margt, svo margt. Segja má að við Ragnar höfum þekkst alla tíð. Það var ekki svo ýkjalangt á milli heimila okkar í Skagafirðinum. Tryggð hans við æskuheimilið var mikil og vænt þótti mér um að sjá þegar hann og hans fólk réðst í að byggja þar upp og lagfæra. Þegar Ragnar fluttist suður hafði hann lært iðn, trésmíði, sem varð hans lífsstarf. Þá urðu samfundir okkar strjálli en þó alltaf nokkrir.

Eftir að við hjónin fluttum á höfuðborgarsvæðið endurnýjuðust þessi kynni og urðu náin. Hjálpsemi hans við okkur var slík að aldrei verður fullþakkað. Þegar við þurftum að "byggja og bæta" og ég vanbúinn til stórræða eftir slys var hann okkur sú aðstoð sem alltaf var hægt að treysta á.

Við Margrét kveðjum góðan vin og samúð okkar er með öllum hans aðstandendum.

Gunnar Baldvinsson.