Ingigerður Pétursdóttir

Ætti ég hörpu hljómaþýða,

hreina mjúka gígjustrengi,

orti eitt skagfirsku góðskáldanna á öldinni. Lag Péturs Sigurðssonar við þetta ljóð og mörg önnur hljómuðu oft í stofu Vindheimahjóna þar sem þau Gæja tóku á móti gestum sínum með mikilli hlýju og mikilli gleði. Það hafa ýmsir tekið til þess hve Skagfirðingar taka hiklaust móti innflytjendum í héraðið, þeim er boðið heim, kannske er hópurinn bættur með nokkrum söngelskum nágrönnum og svo er slegið upp veislu, söngveislu, sérstaklega ef hljóðfæri er á bænum.

Það var gott að vera nágranni Vindheimahjóna og tilhlökkunarefni að koma þar hvort sem veisla var í vændum eða sest var yfir kaffibolla í eldhúsinu. Við Lækjarbakkafeðgar áttum okkar Vindheimadag sem var 21. des., það var afmælisdagur mæðginanna, Gæju og Sigga, og oft fór Jói í Stapa með út að Vindheimum meðan við bjuggum í Tungusveit. Þar var sungið með orgelinu, skrafað og skeggrætt, stökur fæddust, sumar dóu en aðrar fengu stað í vísnabók Gæju og tíminn gleymdist gjörsamlega. Gleði, söngur og risna voru fylginautar húsfreyjunnar á Vindheimum og margar stundir eru minnisstæðar frá samverustundunum.

Síðustu 12 árin hefur lengst vegur milli heimkynna okkar, en stundum hafa leiðir legið saman svo sem á söngkvöldi í Reykjavík fyrir allmörgum árum og enn var tekið lagið.

Það er vorfagurt á Vindheimum og það var eins og vorið byggi með húsfreyjunni þar. Hún átti sitt hús undir bláhimni. Guð blessi hana.

Ingi Heiðmar Jónsson,

Starri Heiðmarsson.