Sigríður Kristófersdóttir Drottinn gaf og drottinn tók. Ég trúi því ekki ennþá að Sigga vinkona mín sé látin svona ung. Á hverjum degi í langan tíma lét ég biðja fyrir Siggu að hún fengi bata, en Jesús tók Siggu til sín og hjá honum fékk hún bata.

Stundum hugsa ég: Hver verður næstur sem ég þekki eða verður það kannski ég sjálf, því enn hafa læknar lítið ráðið við krabbamein.

Ég kynntist Siggu fyrir 15 árum. Þá var hún með tískuverslunina Rítu í Eddufelli. Við áttum margar skemmtilegar stundir saman í litlu kaffistofunni inn af versluninni eftir klukkan 6 á kvöldin. Við hlógum mikið saman og skoðuðum myndir og drukkum kaffi. Sigga vissi að mitt áhugamál er að klæðast smart, og oftast fór ég heim með eitthvað fallegt úr búðinni. Sigga hafði látið útbúa fallega rauða plastpoka merkta Tískuversluninni Rítu, en ég ákvað með Siggu að fara aldrei heim með fötin í fallega merkta pokanum frá búðinni, heldur hafði ég með mér merktan matvörupoka til að setja tískufötin í, enda leit það betur út þegar heim var komið að vera með merktan poka frá matvörubúð.

Sigga var búin að eignast góðan, traustan eiginmann, Benedikt Benediktsson, og hann hugsaði sjálfur um hana heima í veikindunum. Hann gaf henni mikla ást og umhyggju. Snemma á föstudagsmorgun 9. janúar dreymdi mig draum þar sem Sigga kom að rúminu mínu með tvö eða þrjú lítil börn í hvítum kjólum með vængi á bakinu. Mér fannst í draumnum að Sigga ýtti við mér og bæði mig að hjálpa sér, því englabörnin voru svo óþekk. Mér skildist í draumnum að hún væri að fara með englabörnin til himna. Draumurinn varð ekki lengri, en ég glaðvaknaði og gat ekki sofnað aftur. Ég fór í náttslopp og hitaði mér kaffi, ég leit á klukkuna. Hana vantaði þrjár til fjórar mínútur í fjögur um nóttina.

Eftir hádegi sama dag hringdi Benedikt, maðurinn hennar, til mín og sagði mér að Sigga væri látin. Hann sagði mér að hún hefði látist þremur til fjórum mínútum fyrir fjögur um nóttina og tveimur mínútum seinna hefði hann lokað fallegu augunum hennar. Þá var ég líka að drekka síðasta kaffisopann úr bollanum mínum. Eftir þessa sorgarfrétt vissi ég eftir á að við Sigga drukkum saman kveðjukaffið á sömu mínútu og hún var að skilja við.

Í dag hugsa ég að aldrei á minni ævi hafi ég lifað dásamlegra augnablik en að drottinn gaf okkur Siggu tíma til að fá okkur kaffi saman áður en hún fór heim.

Elsku Benedikt, ég bið Jesúm að þerra tárin þín og gefa þér og fjölskyldu Siggu styrk og kraft til að jafna sig á sorginni, en minningin verður eftir. Svo hittum við öll Siggu þegar okkar tími kemur.

Þakka þér fyrir allt, elsku vinkona. Far þú heim á guðs vegum.

"Drottinn er minn hirðir,

mig mun ekkert bresta.

Á grænum grundum lætur hann mig hvílast,

leiðir mig að vötnum,

þar sem ég má næðis njóta.

Hann hressir sál mína,

leiðir mig um rétta vegu

fyrir sakir nafns síns.

Jafnvel þótt ég fari um dimman dal,

óttast ég ekkert illt,

því að þú ert hjá mér,

sproti þinn og stafur hugga mig.

Þú býrð mér borð

frammi fyrir féndum mínum,

þú smyrð höfuð mitt með olíu,

bikar minn er barmafullur.

Já, gæfa og náð fylgja mér

alla ævidaga mína,

og í húsi Drottins bý ég langa ævi."

(23. Davíðssálmur) Þín

Ella Valborg Þorvaldsdóttir.