Dr. Frehen biskup Það var mikill viðburður, þegar páfastóllinn staðfesti helgi Þorláks biskups og lýsti hann verndardýrl ing íslensku þjóðarinnar. Að þessu hafði dr. Frehen biskup unnið um árabil, enda undirbýr kirkjan slíkar yfirlýsingar eins vel og frekast má verða. Íslendingar munu lengi minnast hans fyrir framgöngu í því máli.

Í þessu og mörgu öðru sýndi hann, hvað hann hafði einlægan áhuga á því, sem íslenskt er. Ég minnist til dæmis þess, hve mikils hann mat Jón biskup Arason og vissi góð skil á öllu um hann. Einusinni kom biskup til mín eftir messu og bauð mér í setustofu sína tilþess að sýna mér franska bók um Ísland, sem var rituð á átjándu öld og hann hafði fengið í ljósriti frá safni í París, líklega eina eintakið hérlendis. Við sátum lengi með bókina og hann sýndi mér fram á, hvernig óljósar lýsingar í henni hlutu að eiga við tiltekna menn og staði á norðvestanverðu landinu. Einhvern tíma sagði biskup mér frá safni Vatíkansins og talaði um það, hve gaman yrði að leita þar að heimildum um Ísland, ef hann kæmist á eftirlaun.

Hinrik biskup var heimskunnur fræðimaður, einkum fyrir rannsóknir sínar á verkum heilags Louis Maria Grignion de Montfort. Þessi fátæki trúboðsprestur frá Montfort í Frakklandi hafði þegar á sinni tíð, og enn á okkar dögum, djúpstæð áhrif á flesta, sem kynntust kenningum hans. Víða í þorpum og sveitum Frakklands, þar sem umrót var mikið í trúarefnum, tóku allir íbúarnir sinnaskiptum, eftir að hafa hlýtt á heilagan Louis de Montfort boða iðrun og óbilandi trúnað við hina alsælu Maríu mey. Hinrik biskup var af reglu Montfortprestanna og var yfirmaður í henni, áður en hann fluttist hingað til Íslands. Honum var það mikið áhugamál, að Íslendingar ættu kost á því að kynnast verkum heilags Louis de Montfort og lét hann hefja þýðingar úr þeim.

Ég minnist sérstaklega einnar messu, sem ég var í hjá Hinriki biskupi. Það var á Keflavíkurflugvelli, og kirkjan var fullsetin einsog oftast. Biskup flutti messuna einn og kynnti sig fyrir söfnuðinum. Það var áhrifamikið, hvernig hann virtist strax fá snortið strengi í hjörtum þessa fólks, sem fæst hafði séð hann áður.

Hinrik biskup var sviphýr maður, kvikur í fasi og einlægur í viðmóti. Framkoma hans hlaut að vekja virðingu allra. Þekking hans og tungumálakunnátta var svo víðtæk, að sífellt kom á óvart. Ég hygg, að biskup hafi verið fastheldinn á góða hluti. Hann las til dæmis tíðagjörðir sínar ætíð á latínu og þótti verra, hvernig latínukunnáttu hefur nær verið útrýmt í sumum kaþólskum prestaskólum. Engu að síður kom það í hans hlut að fylgja eftir hérlendis breytingum þeim á kirkju málefnum, sem Vatíkanþingið II samþykkti, og má áreiðanlega segja, að honum hafi tekist í þeim anda að efla kirkjuna mikið á flestum sviðum. Nánast er sama, hvar borið er niður, hvarvetna sér stað framkvæmdasemi og styrkrar forystu biskups.

Ég kom til Hinriks biskups í Landakotsspítala, eftir að hann veiktist. Hann sagði mér, að hann væri með illkynja sjúkdóm og ræddi um það, hve gott væri að leggja líf sitt í hendur Krists og Maríu meyjar. Hann virtist ákaflega glaður, þegar hann talaði um þessa hlutiog hvernig hann gæti fært þjáningar sínar fram fyrir Guð til heilla fyrir kaþólsku kirkjuna á Íslandi.

Við stöndum öll í þakkarskuld við hinn látna biskup.

Sigurður Ragnarsson