Hún var drengur góður. Á kveðjustund er mér efst í huga þakklæti fyrir að hafa átt hana að vini, hún var ætíð hreinskiptin, en

þó örlát svo fágætt má teljast. Leiðir okkar Önnu Stínu lágu snemma saman, við vorum ungar stúlkur sem stefndu að sama marki. Ég held, að fyrst í stað höfum við farið varlega hvor að annarri, það koma stundir þegar manni býður í grun að nú skuli ekki flana að neinu og sú viðvörun er góð fóstra. Þarkom að við þurftum ekki lengur að skoða og kanna, heldur myndaðist það traust sem gerir vináttu það besta sem lífið hefur að bjóða.

Í sjón var hún álfkona sem gaf til kynna að hún væri of viðkvæm fyrir þennan heim en í raun var styrkur hennar mikill og kom ævinlega á óvart. Á leikferli hennar lengst framan af kom það gjarnan í hennar hlut að túlka ungu stúlkurnar, einhverskonar dekurbörn, ef maður lítur til léttu leikanna, en það var fyrst þegar kom að alvarlegri verkum sem buðu upp á góðan skáldskap sem hæfileikar hennar nýttust best. Hún hafði sjaldgæft næmi fyrir texta og þróttmikil en en óvenju hljómfögur röddin vaktiathygli. Þeir sem urðu vitni að flutningi hennar á ljóðum vita að þar var hún í fremstu röð.

Mér er ekki lagið að telja upp staðreyndir og fer ekki út í upptalningu verkefna, sem voru fjölmörg. Síðan kom langt hlé er hún fylgdi manni sínum og börnum á önnur mið. Þau dvöldu á Laugarvatni um árabil þar sem Kristján gegndi kennarastarfi. Þar tók hún til viðað setja á svið verk með menntaskólanemum og varð það til þessað henni bárust boð um að vinna að leikstjórn víða um land, við góðan orðstír.

Þegar litið er til baka koma í hugann myndir af ólíkum vistarverum þeirra Önnu og Kristjáns einsog gerist þegar við erum að hasla okkur völl. Engum hef ég kynnst sem hafði eins gott lag á því og hún að gera fallegt í kringum sig, það var henni lífsnauðsyn. Bæði hafa þó átt sammerkt að hafa ekki farið í háværar kröfugöngur sjálfum sér til handa.

Í skjóli þeirra hafa alist upp mannvænleg börn sem hafa notið mannkosta þeirra. Eina dóttur misstu þau kornunga og var það þeirra stóri harmur.

Anna Stína átti að lokum stranga baráttu við vágestinn sem hún háði með hreinleika og reisn. Hún lést aðfaranótt allraheilagramessu, þeim degi tilheyrir ritningargreinin Sælir eru hjartahreinir, því að þeir munu Guð sjá."

Helga Bachmann