Minning: Kristín Anna Þórarinsdóttir leikkona Fædd 26. október 1935 Dáin 2. nóvember 1986 Kristín Anna Þórarinsdóttir lést á Borgarspítalanum aðfaranótt 2. nóvember síðastliðinn eftir erfitt og strangt sjúkdómsstríð, sem hún háði með þeim óbilandi kjarki, sem hetjum einum er gefinn.

Ég fylgdist með sjúkdómsbaráttu Önnu Stínu, en undir því nafni gekk hún meðal vina og vandamanna, fráþví að fyrstu sjúkdómseinkennin gerðu vart við sig í lok janúarmánaðar síðastliðinn. Í fyrstu afar sakleysisleg einkenni, sem ágerðust jafnt og þétt eftir því sem á veturinn leið.

Hugur minn reikar til sunnudagsins 11. maí síðastliðinn. Anna Stína hafði legið inni á sjúkrahúsi til ítarlegrar rannsóknar, en fékk að fara heim til fjölskyldu sinnarum helgina og átti að koma afturá sjúkrahúsið áðurgreindan dag.

Glampandi vorsólin skein frá al heiðum himni, en vegna ríkjandi norðanáttar, sem varað hafði um skeið, var kuldanepja, þar sem ekki naut skjóls og vorgróður allur lá í dróma vegna vorkuldans.

Anna Stína hringdi í mig árla þessa vormorguns. "Ég vissi, að þú værir vöknuð," sagði hún, "en ég er búin að liggja vakandi frá því fyrir klukkan sex í morgun, ég er víst farin að aðlagast spítalalífinu." Við töluðum saman drjúglanga stund, en síðan sagði hún: "Gerður, ég er hrædd. Í kvöld fer ég afturá spítalann og á morgun fæ ég úrskurð frá sjúkdómsrannsóknun um öllum."

Næsta dag fór ég til hennar á spítalann, en þegar ég kom inn á sjúkrastofuna, þar sem Anna Stína hafði legið, var rúmið hennar autt. Hún var flutt á aðra stofu í morgun," sögðu konurnar, sem höfðu legið á stofu með henni. Þar semég stóð inni í sjúkrastofunni og horfði á autt sjúkrarúmið hríslaðist um mig vonleysiskuldahrollur, miklu kaldari en norðannæðingur inn úti. Ég gekk hljóðum skrefum að nýja sjúkrabeðnum hennar Önnu Stínu, sem nú var á einbýli.

Eiginmaður hennar sat hjá henni, en stóð upp og sagði: "Ég ætla að leyfa ykkur að vera einum um stund." Við tókumst þétt í hendur án þess að talast við, en síðan rauf hún dauðans kyrrðina og sagði: zÞað er krabbamein, eins og mig grunaði, ég á aðeins örstutt líf fyrir höndum. Að vísu ætla læknarnir að reyna bæði lyfja- og geislameðferð, en batahorfur eru hverfandi litlar."

Það var áhrifaríkt að sjá og fylgjast með viðbrögðum fjölskyldu Önnu Stínu við þessum válegu tíðindum. Allt var gert, sem í mannlegu valdi stóð, til þess að létta henni sjúkdómsbyrðina, sem ágerðist með ógnarhraða. Bæði Kristján, eiginmaður hennar, og börnin, Eyjólfur Kjalar, Alda, Árni og Þórarinn, svo og fjölskyldan öll veittu henni ómælda umönnun og styrk og sjálf tók hún örlögum sínum af slíku æðruleysi og hetjulund að aldrei gleymist þeim, sem með fylgdust. Sína síðustu krafta notaði hún til að fegra og dytta að heimilinu þeirra á Grundarstíg 12, enda lagði Anna Stína alla tíð metnað sinn í að halda heimilinu fallegu og hlýlegu og þar skipuðu bækur, blóm, ljós og listaverk öndvegi.

Og svo kom sumarið með marga yndislega og fagra sólardaga. Anna Stína unni sól og sumri, hún var í eðli sínu sannkallað sólskinsbarn og hvert sinn er af henni bráði keyrði Kristján hana út í sólskinið og veitti það henni mikla gleði.

Í eðli sínu var hún náttúrubarn, sem unni gróðri og fegurð landsins. Við fórum saman í nokkrar ferðir inn á íslensk öræfi og hafði hún orð á því, að sér opnaðist nýr, fagur og áður óþekktur heimur. Á síðastliðnu sumri komst hún nokkrum sinnum í heimsókn í sumarbústað okkar hjóna, sem stendur útivið sjávarsíðuna á Vatnsleysuströnd, og gladdist hún innilega yfir blómunum og trjáplöntunum, sem við vorum að rækta, en bað alltaf um að verða keyrð alveg niður að sjónum til þess að heyra sjávarniðinn og anda að sér fersku sjávarloftinu.

Anna Stína var falleg kona, fínleg og framganga hennar öll var fáguð, hlýleg og aðlaðandi. Hún var ákaflega listhneigð og unni allri fegurð jafnt fegurð himinsins og náttúrunnar allrar, sem fegurð tóna, lita, forma og bókmennta. Af öllum listum var leiklistin hug fólgnust, enda þjóðkunn leikkona og upplesari og í allra fremstu röð íslenskra ljóðalesara. Hún hafði ákaflega þýða og hljómfagra rödd og sitt daglega málfar vandaði hún svo, að athygli vakti.

Vegna óvenju fjölþættrar lífsreynslu Önnu Stínu var hún vinum sínum skilningsrík, nærgætin og sannur vinur í gleði og sorg. Hún þekkti lífið frá öllum hliðum þess flestum öðrum betur og átti því afar auðvelt með að setja sig í annarra spor, uppörva og hugga, samgleðjast, skilja og fyrirgefa.

Þegar ég kynntist Önnu Stínu fyrst hafði hún fyrir fáum árum gifst Kristjáni Arasyni, kennara við Háskóla Íslands og Menntaskólann á Laugarvatni, og áttu þau silfurbrúðkaup í september síðastliðnum.

Þau hjónin áttu óvenju mörg sameiginleg áhugamál, sem ásamt einlægri væntumþykju tengdu þau saman órjúfandi tryggðaböndum. Meiri kærleik og umönnun en Kristján sýndi Önnu Stínu í hennar þungbæru veikindum er ekki hægtað hugsa sér. Og þegar að endalokum dró vék hann vart frá sjúkrabeði hennar, hvorki dag né nótt. Og svo var einnig um börnin og fjölskylduna alla.

Á Borgarspítalanum á deild A-6 naut Anna Stína hinnar fullkomnustu hjúkrunar og kærleiksríkrar umönnunar hjúkrunarliðs deildarinnar, sem ég veit, að fjölskyldan og vinahópurinn er mjög þakklát fyrir.

Við Egill færum hér hugheilar þakkir fyrir áratugavináttu við Önnu Stínu og Kristján og þeirra fjölskyldu, fyrst á Laugarvatni og síðan hér í Reykjavík.

Við sendum öllum aðstandendum okkar dúpstu samúðarkveðjur. Guð blessi minningu Kristínar Önnu Þórarinsdóttur.

Gerður H. Jóhannsdóttir