Minning: Ragnhildur Sigbjörnsdóttir, Höfn, Hornafirði Fædd 10. september 1923 Dáin 31. október 1986 Dáin horfin! - Harmafregn! Það er með trega að við minnumst ástkærrar vinkonu og skólasystur, Rögnu, sem lést 31. október að heimili sínu á Höfn í Hornafirði. Við vissum að hún gekk ekki heil til skógar, en við vonuðum að henni auðnaðist lengra líf.

Ragnhildur Sigbjörnsdóttir varfædd 10. september 1923 á Hjartarstöðum, Eiðaþinghá, næst yngst barna Önnu Sigurðardóttur og Sigbjarnar Sigurðssonar bónda þar. Hún fluttist með foreldrum sínum til Reykjavíkur vorið 1936. Þar ólst hún upp á traustu heimili góðra foreldra, sem innrættu börnum sínum trúmennsku og manngildi. Ragnhildur var vel gefin og fékk að njóta námsgáfna sinna. Hún varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1943 og lauk prófi frá Húsmæðrakennaraskóla Íslands 1946.

Rögnu okkar, eins og við nefndum hana í okkar hópi, fylgdi ferskur blær í skóla. Hún var broshýr, hláturmild, ætíð hrókur alls fagnaðar, söngvin, ljóðelsk og engin var léttari í dansinum. Ragna var vinur vina sinna, hlý og einlæg í viðmóti, svo öllum leið vel í návist hennar. Hún var nokkuð fámál og orðvör í hvívetna, lastaði sjaldan nokkurn mann en vildi draga það jákvæða fram í dagsljósið.

Ragna nýtti lítið nám sitt í starfi utan heimilis síns. Kenndi 2 vetur við Laugarnesskóla heimilisfræði og auk þess matreiðslu, sem húnvar snillingur í, við HKÍ einn vetur.

Árið 1948 giftist Ragna Kjartani Árnasyni sem lengstum var héraðslæknir við góðan orðstír á Höfn í Hornafirði. Börn þeirra eru:

Birna, heimilisfræðikennari, gift Jóni H. Stefánssyni, eðlisverkfræð ingi hjá Ísal. Þau eiga 3 börn.

Árni, verkfræðingur og arkitekt á Höfn, kvæntur Kristbjörgu Guðmundsdóttur, húsmóður. Þau eiga 3 börn. Anna, líffræðingur og læknakandidat, gift Þórarni Guðmundssyni læknakandidat. Þau eiga 2 börn. Sigbjörn, jarðeðlisfræðingur, sem stundar nám í arkitektur í Osló.

Ragna missti Kjartan sviplega vorið 1978 og má segja að hún bæri aldrei sitt barr eftir það þótt hún bæri harm sinn í hljóði. Þau voru mjög samhent og samrýnd og skópu börnum sínum fagurt og friðsælt heimili. Úr heimaranni fengu systkinin gott og ómælt veganesti.

Ragna vann sitt aðalævistarf innan veggja heimilis síns. Hún var mikil húsmóðir og þar kom menntun hennar að góðum notum. Hún var sívakandi yfir velferð eiginmanns og barna. Heimilið bar vott um smekkvísi, vandvirkni og natni. Oftast var vinnudagurinn langur, því á læknisheimilinu var löngum erilsamt áður en heilsugæslustöðvar byggð á Höfn. Án efa hefur Rögnu oft orðið svefns vant meðan flestar ár voru óbrúaðar í A-Skafta fellssýslu, er hún beið Kjartans þegar hann var kallaður til sjúkra jafnt á nóttu sem á degi og þurfti oft að berjast við óblíð náttúruöfl.

Ragna og Kjartan voru samtaka um að fegra og vernda umhverfi sitt og ber sumarbústaðarland þeirra í Lóninu þess gleggstan vott. Þangað leituðu þau oft er stundir gáfust til að njóta friðar og hvíldar og þar gróðursettu þau tré og hlúðu að viðkvæmum gróðri. Fáir, sem séð hafa blómaskrúðið í blómaskálanum og garðinum á Hrísbraut, gleyma því.

Ragna og Kjartan voru mjög gestrisin og stóð heimili þeirra opið öllum vinum og vandamönnum. Þar voru allir bornir á höndum og um vafðir hlýju og velvilja. Urðum við mörg þess aðnjótandi að verður það seint fullþakkað.

Að Kjartani látnum fór Ragna að vinna við heilsugæslustöðina á Höfn. Þar sem annars staðar kom samviskusemi og vandvirkni hennar í ljós og mun hennar án efa saknað af samstarfsmönnum.

Á þessari skilnaðarstundu, þegarvið hrygg í huga kveðjum vinkonu okkar, minnumst við með söknuði allra þeirra góðu stunda sem við áttum með henni.

Við færum börnum hennar, tengdabörnum og öllum öðrum sem henni voru kærir innilegar samúðarkveðjur í sorg okkar allra. Blessuð sé minning hennar.

Sízt vil ég tala um svefn við þig.

Þreyttum anda er þægt að blunda

og þannig bíða sælli funda.

Það kemur ekki mál við mig.

Flýt þér, vinur, í fegra heim.

Krjúptu að fótum friðarboðans,

og fljúgðu á vængjum morgunroðans

meira að starfa guðs um geim."

(Jónas Hallgrímsson.)

Stúdentar MR 1943