BJÖRN Bjarnason menntamálaráðherra flutti í gær, þriðjudag, ræðu á ráðstefnu UNESCO um æðri menntun sem haldin er í París. Rúmlega eitt hundrað menntamálaráðherrar sækja ráðstefnuna auk fulltrúa háskóla, nemenda og kennara. Í hópi rektora á ráðstefnunni eru Páll Skúlason frá Háskóla Íslands og Þorsteinn Gunnarsson frá Háskólanum á Akureyri. Alls sækja á þriðja þúsund manns ráðstefnuna.
Menntamálaráðherra

á ráðstefnu UNESCO Stefnt að auknu

sjálfstæði og sjálfstjórn háskóla

BJÖRN Bjarnason menntamálaráðherra flutti í gær, þriðjudag, ræðu á ráðstefnu UNESCO um æðri menntun sem haldin er í París. Rúmlega eitt hundrað menntamálaráðherrar sækja ráðstefnuna auk fulltrúa háskóla, nemenda og kennara. Í hópi rektora á ráðstefnunni eru Páll Skúlason frá Háskóla Íslands og Þorsteinn Gunnarsson frá Háskólanum á Akureyri. Alls sækja á þriðja þúsund manns ráðstefnuna.

Menntamálaráðherra gerði í ræðu sinni nokkra grein fyrir nýjum lögum um háskóla hér á landi, segir í fréttatilkynningu. Hann lagði áherslu á nauðsyn þess að með réttum hætti yrði brugðist við þeirri þróun að sífellt fleiri sækjast eftir háskólamenntun. Stjórnmálamenn yrðu að finna bestu leiðirnar til að gera hverri háskólastofnun kleift að vaxa og þróast á eigin forsendum. Með nýjum háskólalögum stefndu íslensk stjórnvöld að því að auka sjálfstæði og sjálfstjórn háskóla. Hann minnti á, að öll mannaforráð í háskólum yrðu nú flutt í hendur rektors. Brýnt væri að gera strangar kröfur til háskólastarfsmanna, því að þróun skólanna væri undir þeim komin.

Ráðherrann lagði áherslu á, að í framhaldsskólum yrðu nemendur búnir sem best undir sjálfstætt háskólanám. Hver einstaklingur yrði að fá góða grunnmenntun, sem auðveldaði honum að takast á við síbreytilegar kröfur og leggja stund á símenntun að lokinni hefðbundinni skólagöngu.

Ný upplýsingatækni opnaði nýjar víddir í menntamálum. Hún auðveldaði öllum að tileinka sér æðri menntun, hvar sem þeir væru og á hvaða aldri sem þeir væru. Ríki, sem stæðu ekki vel að æðri menntun, drægjust aftur úr í alþjóðlegri samkeppni. Hátt þekkingarstig þjóða væri forsenda velgengni þeirra.