Klarinetta og píanó. Sigurður I. Snorrason og Anna Guðný Guðmundsdóttir flytja verk eftir Robert Schumann, Jóhannes Brahms, Francis Poulenc, Atla Heimi Sveinsson og Þorkel Sigurbjörnsson.
Jafnvægislist TÓNLIST Gerðarsafn KAMMERTÓNLEIKAR

Klarinetta og píanó. Sigurður I. Snorrason og Anna Guðný Guðmundsdóttir flytja verk eftir Robert Schumann, Jóhannes Brahms, Francis Poulenc, Atla Heimi Sveinsson og Þorkel Sigurbjörnsson. ÚRHELLI og hávaðarok á mánudagskvöldið kom ekki í veg fyrir góða aðsókn á tónleika Sigurðar Ingva Snorrasonar klarinettuleikara og Önnu Guðnýjar Guðmundsdóttur píanóleikara í Gerðarsafni. Á efnisskrá þeirra voru tvö rómantísk verk: Fantasiestücke op. 73 eftir Robert Schumann, og Sónata í f-moll ópus 120 nr. 1 eftir Jóhannes Brahms; tvö íslensk verk: Rek, eftir Þorkel Sigurbjörnsson og Novelette eftir Atla Heimi Sveinsson, og loks Sónata eftir Francis Poulenc. Það var líka notalegt að koma inn úr nöpru haustveðrinu og setjast í bjartan salinn prýddan heillandi vefskúlptúrum Ólafar Einarsdóttur og hlusta á þessa vel völdu efnisskrá tónlistarlegra vefskúlptúra. Fantasiestücke eftir Schumann eru indælar tónsmíðar, ­ fullar af ljóðrænum léttleika og hlýju. Schumann samdi verkið á örfáum dögum á besta tíma ævi sinnar, þegar allt lék í lyndi, áður en veikindi rændu hann ráði og rænu. Þau Sigurður Ingvi og Anna Guðný léku þessi innilegu smáverk af of mikilli varfærni. Leikurinn var daufur og náði ekki flugi; hann var yfirvegaður en vantaði eldinn. Rek eftir Þorkel Sigurbjörnsson, samið 1984, var fallega spilað. Flúrað dulúðugt stef klarinettunnar, spunnið kringum rísandi mollþríund, er endurtekið í tilbrigðum. Píanóið leggur til hið gegnsæja hljómahaf sem stefið rekur um. Það var skýrt jafnvægi í leik Sigurðar Ingva og Önnu Guðnýjar. Ekki var samleikurinn síðri í Nóvelettu Atla Heimis Sveinssonar frá 1987, sem heyrðist hér í fyrsta sinn í nýrri gerð frá 1996. Þar er samskiptaháttur hljóðfæranna er átakamikill; - samræðan spennt. Klarinettan stagast á fjögurra tóna þrástefi sínu, - reynir ítrekað að brjótast úr viðjum þess, en píanóið hamlar för, með þungum massívum hljómum sem brjóta upp framvinduna. Stefið er frelsað úr viðjum tónanna fjögurra og miðbik verksins er rismikil samræða hljóðfæranna tveggja á jafnræðisgrunni, en undir lokin leitar klarinettan til baka í upphafsstefið. Þetta skemmtilega verk var feiknar vel leikið; - af mikilli innlifun af beggja hálfu í kröftugu og dýnamísku samspili. Það er eins og það sé innbyggð nostalgía í tónlist Francis Poulencs. Er það ekki vegna þess hve hún gerir sig heimakomna í huga manns, með þessar ljúfsáru og seiðandi laglínur sem seytla viðnámslaust inn að hjartarótum? Poulenc samdi klarinettusónötuna árið sem hann lést, - 1962, fyrir klarinettuleikarann heimskunna, Benny Goodman. Þetta er hrífandi tónsmíð og undur ljúf, þótt hún sé á skjön við þær hræringar sem voru í tónsköpun á fyrri hluta sjöunda áratugarins; - hún gæti vel hafa verið samin hálfri öld fyrr. Mjúkur og gisinn tónn í túlkun klarinettunnar léði flutningnum draumkennda angurværð. Þetta var virkilega þokkafull og falleg túlkun.

Lokaverkið á efnisskránni og það stærsta var Klarinettusónata Brahms ópus 120 nr. 1. Þetta er mikið verk að burðum, samið á sumardvalarstað tónskáldsins í Ischl sumarið 1894 fyrir klarinettuleikarann Richard Mühlfeld sem frumflutti það með tónskáldið við píanóið í september sama ár. Það má segja að hér hafi verið sama upp á teningnum og í verki Schumanns; það var deyfð yfir flutningnum. Það vantaði meiri ástríðu og dýpt í hann og hömlulausari spilamennsku. Þó var margt fallega leikið, eins og dansinn í þriðja þætti, sem var leikinn með mikilli reisn. Þau Sigurður Ingvi og Anna Guðný eru bæði góðir tónlistarmenn. Það er synd að þau skuli ekki hafa leikið meira saman en raun ber vitni, - því samleikur þeirra er firna fallegur, og í mjög góðu jafnvægi. Fleiri tækifæri og fleiri tónleikar myndu án efa gera þau að harðsnúnu dúói. Það er vonandi að þau styttist hléin milli þess sem við fáum að heyra í þeim saman.

Bergþóra Jónsdóttir.