MERRILL Lynch & Co. Inc. kveðst hafa lánað baktryggingarsjóðum, þar á meðal hinum bágstadda Long- Term Capital Management, um 2,1 milljarð dollara og segir að tryggingar hafi verið lagðar fyrir lánunum að einu undanteknu, að upphæð 84 milljónir dollara.
Merrill bjargar baktryggingarsjóðum

New York. Reuters.

MERRILL Lynch & Co. Inc. kveðst hafa lánað baktryggingarsjóðum, þar á meðal hinum bágstadda Long- Term Capital Management, um 2,1 milljarð dollara og segir að tryggingar hafi verið lagðar fyrir lánunum að einu undanteknu, að upphæð 84 milljónir dollara.

Merrill, sem tekur þátt í 3,6 milljarða dollara björgun Long-Term Capital, kveðst eiga tryggingar upp á tæplega 2 milljarða dollara fyrir lánum þeim sem fyrirtækið hafi veitt, aðallega reiðufé, bandarísk ríkisskuldabréf og verðbréf.

Af baktryggingarsjóðum kveðst Merrill hafa lánað Long-Term Capital mest, eða 1,4 milljarða dollara, og segir að það lán hafi verið að fullu tryggt.

Nokkrir bankar og verðbréfafyrirtæki hafa smám saman skýrt frá lánum til baktryggingarsjóða síðan bundizt var samtökum um að bjarga Long-Term Capital Managment, sem tapaði stórfé með illa tímasettum áhættufjárfestingum á alþjóðlegum verðbréfamörkuðum.

Chase Manhattan Corp. skýrði fyrstur bandarískra banka frá útistandandi lánum til baktryggingarsjóða, að upphæð 3,2 milljarðar dollara. Bankers Trust Corp. tilkynnti síðan að baktryggingarsjóðir skulduðu þeim banka alls um 875 milljónir dollara.

Bæði Chase Manhattan og Bankers Trust taka þátt í aðgerðum samtaka 14 kunnra banka og verðbréfafyrirtækja til að halda Long-Term Capital á floti.

Samkvæmt upplýsinum frá Merrill námu lán bankans til allra annarra baktryggingarsjóða en Long- Term Capital um 700 milljónum dollara. Lánin eru margvísleg og það annað mesta var innan við 15% af því sem Long-Term Capital fékk lánað. Aðrir sjóðir en LTCM voru ekki nafngreindir.