BOEING Co. hefur samþykkt að greiða 10 milljónir dollara í sekt vegna ásakana um að hafa veitt rússneskum og úkraínskum samstarfsaðilum hernaðarlegar og tæknilegar upplýsingar við gervihnattasmíði, að sögn embættismanna.


Boeing greiðir 10 milljóna dollara sekt

Seattle. Reuters.

BOEING Co. hefur samþykkt að greiða 10 milljónir dollara í sekt vegna ásakana um að hafa veitt rússneskum og úkraínskum samstarfsaðilum hernaðarlegar og tæknilegar upplýsingar við gervihnattasmíði, að sögn embættismanna.

Ekkert annað fyrirtæki hefur orðið að greiða eins háa sekt samkvæmt lögum um efirlit með útflutningi hergagna frá 1976.

Bandaríska utanríkisráðuneytið stöðvaði vinnu við Sea Launch- gervihnattaverkefni undir forystu Boeing 27. júlí þegar það frétti að samstarfsaðilar Boeings í Rússlandi og Úkraínu kynnu að fá tæknilegar upplýsingar frá bandarísku flugvélaverksmiðjunum.

Rannsókn leiddi í ljós að Boeing braut lögin 207 sinnum, aðallega með því að flytja út vöru og þjónustu án nauðsynlegs samþykkis. Þjóðaröryggi hafi þó ekki verið stefnt í hættu.

Samkvæmt samkomulagi við utanríkisráðuneytið viðurkenndi Boeing hvorki né neitaði að hafa brotið af sér, en samþykkti að greiða 7,5 milljónir dollara af sektinni. Greiðslu 2,5 milljóna dollara var frestað með því skilyrði að Boeing verji jafnhárri upphæð á þremur árum til að hlíta lögunum um vopnaútflutning.

FRÁ Boeing-verksmiðjunum í Seattle.