RÚSSNESKA fyrirtækið Technopromexport sendi í gær skeyti til Félags járniðnaðarmanna og óskaði eftir fundi með þremur starfsmönnum fyrirtækisins sem leituðu á náðir félagsins þegar senda átti þá til Rússlands um síðustu helgi, til þess að fá fullvissu um að þeir væru við góða heilsu og hefði ekki verið rænt.
Technopromexport óttast um starfsmenn í umsjón verkalýðsfélaga Vill vita hvort Rússunum hafi verið rænt

Þrír starfsmenn Technopromexport sem unnið hafa við lagningu Búrfellslínu fyrir Landsvirkjun dvelja enn hérlendis en rússneska fyrirtækið ætlaði að senda þá heim um helgina. Verið er meðal annars að grafast fyrir um hvernig háttað er greiðslu skatta.

RÚSSNESKA fyrirtækið Technopromexport sendi í gær skeyti til Félags járniðnaðarmanna og óskaði eftir fundi með þremur starfsmönnum fyrirtækisins sem leituðu á náðir félagsins þegar senda átti þá til Rússlands um síðustu helgi, til þess að fá fullvissu um að þeir væru við góða heilsu og hefði ekki verið rænt.

Technopromexport, sem er verktaki Landsvirkjunar við lagningu Búrfellslínu 3A, óskaði einnig eftir sönnunum þess að mennirnir væru við góða heilsu, fengju nægilega mikið að borða og byggju við góðar aðstæður.

"Við höfum áhyggjur af þessum mönnum því að Technopromexport sendi þá til Íslands og ber ábyrgð á lífi þeirra," segir í skeyti fyrirtækisins á ensku.

Rússarnir hér af fúsum og frjálsum vilja

Aleksey Shadskiy, blaðafulltrúi rússneska sendiráðsins, segir að starfsmaður sendiráðsins, Alexander Evdokimov konsúll, hafi haft samband við einn Rússanna þriggja í gær og komist að því að þeir væru hér af fúsum og frjálsum vilja. Íslensku verkalýðsfélögin hafa, að eigin sögn, haft mennina þrjá í felum en Shadskiy segir að það hafi ekki verið neinum vandkvæðum bundið að hafa uppi á þeim.

Hann segir jafnframt að Rússarnir hafi sagt að þeir hefðu ekki yfir neinu að kvarta gagnvart Technopromexport, verksamningi þeirra við fyrirtækið væri lokið.

Á heimasíðu Rafiðnaðarsambands Íslands er önnur saga sögð. Þar segir að Rússunum hafi verið lofað því áður en þeir komu til Íslands að þeim yrðu greiddir 1.000 dollarar í mánaðarlaun, eða tæpar 70 þúsund krónur og að auki 4 dollara fyrir hverja stund sem færi fram yfir umsaminn vinnutíma. Þegar komið var til Ísland kom í ljós að yfirmenn Technopromexport ætluðu að greiða þeim 100­300 dollara á mánuði.

"Þeim var sagt að það væri vegna þess að fyrirtækið hefði þurft að leggja út í mun dýrari aðbúnað hér og þeir ættu að borga mismuninn. Ef Technopromexport hefði borgað það sem um var samið verður að teljast mjög líklegt að stéttarfélögin hefðu ekki gómað fyrirtækið. Starfsmenn hefðu þá verið tilbúnir að skrifa undir að þeir væru búnir að fá öll laun. Oft skrifa verkamenn frá Austur-Evrópu undir yfirlýsingar um að þeir hafi 4.000 dollara á mánuði þegar þeir eru að vinna í Vestur-Evrópu, þótt þeir hafi ekki nema brot af því."

Á heimasíðunni kemur fram að mennirnir sem nú eru undir vernd verkalýðsfélaganna séu allir fjölskyldumenn, tveir þeirra eru um fertugt og einn um þrítugt. Tveir eiga heima í Suður-Rússlandi en einn í Úkraínu.

Hefur ekki fengið laun í þrjú ár

Einn mannanna starfaði sem flokkstjóri við samsetningar á möstrum við Búrfellslínu 3A. Hann starfaði við kjarnorkuver heima fyrir en hefur ekki fengið útborguð laun þar í þrjú ár, en launamenn þurfi aftur á móti ekki að borga fyrir rafmagn, vatn og síma og fái að taka nauðsynlegan mat út í sérstökum verslunum.

Reiknað er út á heimasíðunni hvað flokkstjórinn hefði átt að fá í laun samkvæmt íslenskum kjarasamningum og eru það að frádregnum lífeyrissjóðsgreiðslum, skatti, og orlofi 69.310 krónur á viku. Þá er ekki reiknað með skattheimtu í Rússlandi. Það sem hann og aðrir starfsmenn hafi að endingu fengið greitt, séu hins vegar 1.100 dollarar á mánuði, eða um fjórðungur réttra launa.

Í yfirlýsingu frá rússnesku starfsmönnunum þremur í gærkvöld segir m.a. að þeir hafi orðið eftir á Íslandi að eigin frumkvæði og án þrýstings frá fulltrúum verkalýðsfélaga. Þau hafi veitt þeim hjálp varðandi fjárhagskröfurnar á Technopromexport. Þeir segjast þakklátir verkalýðsfélögunum fyrir alla aðstoðina og segja jafnframt að þar sem Technopromexport hafi rofið samning sinn við þá hafi þeir enga þörf fyrir að hitta fulltrúa fyrirtækisins.

Technopromexport leiðréttir skilning á fyrri ummælum

Technopromexport hefur sent Landsvirkjun leiðréttingu vegna þess að það telur að rangur skilningur hafi verið lagður í þær upplýsingar sem fyrirtækið sendi frá sér á dögunum um leyfi rússneskra þegna til að stofna bankareikninga erlendis. Það sem átt hafi verið við sé að rússneskum fyrirtækjum sé samkvæmt gjaldeyrislöggjöf landsins bannað að stofna slíka reikninga án leyfis rússneska seðlabankans, en einstaklingum sé það frjálst. Ósk félagsmálaráðuneytisins um að Technopromexport greiddi laun starfsmanna inn á íslenska reikninga hefði stangast á við þessi lög, að mati fyrirtækisins. Shadskyi, blaðafulltrúi rússneska sendiráðsins, segir að það geti tekið fyrirtæki eða ríkisstofnanir 2­3 mánuði að afla gjaldeyrisleyfis.

Þessar nýju skýringar Technopromexport á rússneskri gjaldeyrislöggjöf eru í aðalatriðum þær sömu og íslenska sendiráðið í Moskvu hefur aflað fyrir félagsmálaráðuneytið. Elín Blöndal, deildarstjóri í ráðuneytinu, segir að hins vegar hafi gengið erfiðlega að fá hjá rússneskum yfirvöldum fullnægjandi upplýsingar um þá fullyrðingu Technopromexport að starfsmönnum þess á Íslandi sé skylt að greiða 37% skatt af launum sínum í Rússlandi. Að sögn Elínar vinnur utanríkisráðuneytið áfram að því í gegnum sendiráð Íslands í Moskvu að afla staðfestingar á þessum upplýsingum. Blaðafulltrúi rússneska sendiráðsins treysti sér heldur ekki til að skera úr um þetta atriði. Elín segir að haldið verði áfram að leita upplýsinga.

Varaði Landsvirkjun við Technopromexport

Guðmundur Gunnarsson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, segist hafa varað Landsvirkjun við því að fá Technopromexport til lagningar Búrfellslínu áður en gengið var frá samningum. "Ég er í stjórn Norræna rafiðnaðarsambandsins og það var stjórnarfundur 17. febrúar síðastliðinn. Þar kom formaður finnska rafiðnaðarsambandsins til mín og spurði mig að því hvort það væri rétt að Landsvirkjun myndi semja við þetta rússneska fyrirtæki. Ég sagðist vita til þess að þeir hefðu verið lægstir og það gæti vel farið svo. Hann sagði, þá eigið þið eftir að lenda í erfiðleikum."

Guðmundur segist hafa rætt við Landsvirkjun út af málinu og komið hafi til bréfaskipta í byrjun mars. Hann segir að Landsvirkjun hafi fullvissað sig um að allt yrði í góðu lagi.

"Ég veit það að ráðgjafar hérlendis vöruðu mjög eindregið við þessum samningum. Það var rætt mjög mikið um það í rafeindageiranum síðastliðinn vetur hvers vegna Landsvirkjun væri að þessu. Það voru önnur fyrirtæki sem voru mun álitlegri."

Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, segist ekki vita til þess að neinar formlegar viðvaranir hafi borist frá verkalýðsfélögunum vegna Technopromexport. Hann bendir aftur á móti á að Landsvirkjun hafi áður átt í samskiptum við rússneska og austur-evrópska verktaka, meðal annars hafi fjölmennir hópar Rússa og Júgóslava verið hér við byggingu Sigölduvirkjunar á áttunda áratugnum og eins hafi Júgóslavar starfað við Blönduvirkjun.

Hann bendir einnig á að erfiðleikar hafi oft áður komið upp í samskiptum Landsvirkjunar við verktaka, og þar hafi íslensk fyrirtæki einnig átt í hlut.

Fundur Landsvirkjunar og Technopromexport í dag

Að minnsta kosti annar þeirra tveggja yfirmanna sem sendir hafa verið úr höfuðstöðvum Technopromexport í Moskvu til viðræðna við Landsvirkjun var kominn til landsins síðdegis í gær og hinn var annað hvort kominn eða væntanlegur. Mennirnir tveir, A. Yankilevskty og E. Subbota, munu funda með yfirmönnum Landsvirkjunar í dag.