eftir Guðmund Ólafsson Vaka ­ Helgafell. 1998 - 174 bls. UNGLINGSÁRIN eru mörgum unglingi erfið. Í kjölfarið á líkamlegum breytingum og breytingum á félagslegri stöðu skapast óvissa um eigin stöðu, sjálfstraustið veiklast, ekki síst gagnvart hinu kyninu og stundum eru unglingar helteknir af óþarfa spéhræðslu.

Verðlaunasaga

BÆKUR

Unglingasaga

HELJARSTÖKK AFTUR Á BAK

eftir Guðmund Ólafsson Vaka ­ Helgafell. 1998 - 174 bls.

UNGLINGSÁRIN eru mörgum unglingi erfið. Í kjölfarið á líkamlegum breytingum og breytingum á félagslegri stöðu skapast óvissa um eigin stöðu, sjálfstraustið veiklast, ekki síst gagnvart hinu kyninu og stundum eru unglingar helteknir af óþarfa spéhræðslu. Á þessu tímabili ævinnar taka menn hins vegar út mestan þroska og læra hægt og hægt að takast á við eigið kynferði, eigin sérkenni, kosti og galla. Um þetta efni öðru fremur fjallar Guðmundur Ólafsson í bók sinni Heljarstökk aftur á bak sem út kom fyrir skömmu. Guðmundur hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin fyrir þessa bók. Hana prýða líka ótal margir kostir enda þótt hún sé ekki með öllu laus við veikleika.

Guðmundur tekst vafningalaust á við efni sitt. Sagan er skýr og einföld í uppbyggingu. Hér segir frá Jóni Guðmundssyni, busa í MR, fjölskyldu hans, vinum og stelpu sem hann er skotinn í og svo líka átökum hans við annan pilt og vini hans. Sagan er sögð á lipran en hófstilltan hátt og hún fer aldrei út af sporinu ef svo mætti segja. Sögu Jóns er fylgt útúrdúralaust enda nægir hún til að halda athygli okkar vakandi.

Einn helsti kostur bókarinnar er hversu margar persónur sögunnar eru eftirminnilegar og vel upp dregnar. Bæði á þetta við um aðalpersónuna sem býr yfir óvæntum hæfileikum og ýmsar aukapersónur sögunnar, svo sem Hreggvið menntaskólakennara, andstæðing Jóns, Drauminn, og fleiri. Nokkuð byggir Guðmundur frásögn sína á samtölum sem eru fjörleg og innihalda ýmsar hnittnar glósur sem gera hana skemmtilega.

Það hefur löngum verið mælikvarði á unglingabækur hversu vel tekst til í þeim að takast á við málefni unglingamenningarinnar. Guðmundur leitast við að takast á við þau. Víða drepur hann á ýmis málefni sem tengjast unglingum í texta sínum, svo sem unglingadrykkju, lærdóm og anorexíu, þótt þau íþyngi textanum aldrei um of. Á bak við umfjöllun þessara málefna er vitaskuld falinn siðferðislegur boðskapur sem ég held að komist vel til skila. Ef til vill hefði Guðmundur mátt fara dýpra ofan í sumt sem þarna er á ferð. Það er oft eins og hann rétt tæpi á vandamálunum eins og af skyldurækni.

Aðalveikleikar sögunnar eru þó að mínu mati hversu lítið vægi sú persóna, sem er þó að mörgu leyti aflvaki sögunnar, hefur í henni. En það er rauðhærða draumadísin sem verður kveikjan að því að Jón fer í MR. Í sögunni er hún fyrst og fremst fjarlægt viðfang hugsana Jóns og einhvern veginn tekst ekki að klæða hana holdi og blóði. Á sama hátt hefði Guðmundur mátt eyða meira púðri í sögufléttuna sem ekki er áberandi fyrirferðarmikil. Mjög margar prýðilegar sögur hafa verið skrifaðar um svipað efni og því þörf á mörgum frumlegum og óvæntum hugmyndum til að bókin skeri sig úr. Slíkar hugmyndir eru fyrir hendi í bók Guðmundur og gefa bókinni mikið gildi. En þær hefðu að ósekju mátt vera fleiri.

Langstærsti kostur bókarinnar er þó lipur texti sem er hlaðinn kímni sem kallar fram bros og hlátur. Hún er fyrst og fremst skemmtileg lesning og uppbyggileg fyrir sálina. Hér er því á ferðinni góð bók og ánægjuleg og í flesta staði vönduð og víst að Guðmundur er vel að Íslensku barnabókaverðlaununum kominn.

Skafti Þ. Halldórsson.

Guðmundur

Ólafsson