TILLAGA um að sameina Hitaveitu Reykjavíkur og Rafmagnsveitu Reykjavíkur í nýtt fyrirtæki undir vinnuheitinu Orkuveita Reykjavíkur hefur verið lögð fram í borgarráði og er gert ráð fyrir að borgarstjórn muni afgreiða tillöguna á fundi sínum 15. október nk.
Hitaveita Reykjavíkur og Rafmagnsveita Reykjavíkur sameinuð

Orkuveita Reykjavíkur

stofnuð um áramót

Auglýst verður eftir forstjóra

TILLAGA um að sameina Hitaveitu Reykjavíkur og Rafmagnsveitu Reykjavíkur í nýtt fyrirtæki undir vinnuheitinu Orkuveita Reykjavíkur hefur verið lögð fram í borgarráði og er gert ráð fyrir að borgarstjórn muni afgreiða tillöguna á fundi sínum 15. október nk. Að sögn Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur borgarstjóra er gert ráð fyrir að fyrirtækið taki til starfa undir nýju nafni um næstu áramót og að þá hefjist hið eiginlega sameiningarferli. Ákveðið hefur verið að auglýsa eftir forstjóra að fyrirtækinu á næstunni.

Ný sóknarfæri

Borgarstjóri sagði að við stofnun fyrirtækisins yrði núverandi starfsmönnum beggja veitna tryggður sambærilegur réttur og þeir njóta núna og að engum starfsmanni yrði sagt upp. "Tilgangur með sameiningunni er að auka möguleika nýja fyrirtækisins á sviði rannsóknar, þróunar og markaðssóknar," sagði Ingibjörg Sólrún. "Við teljum að þarna skapist ný sóknarfæri á því sviði bæði innanlands og erlendis og að fyrirtækið verði betur í stakk búið til að mæta fyrirsjáanlegri orkuframleiðslu og jafnvel orkudreifingu á næstu öld."

Rúmt ár er síðan undirbúningsvinna hófst að sameiningu fyrirtækjanna undir yfirstjórn borgarstjóra og borgarfulltrúanna Alfreðs Þorsteinssonar og Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar auk þess sem starfshópur skipaður þeim Skúla Bjarnasyni hrl., Sveini Andra Sveinssyni hdl. og dr. Valdimar K. Jónssyni prófessor hefur unnið að úttekt og að verkinu í heild í umboði nefndarinnar.

Í samstarfi við starfsmenn

Sagði borgarstjóri að kappkostað hafi verið að hafa sem best samstarf við starfsmenn fyrirtækjanna og að tillagan hafi verið kynnt þeim bréflega auk þess sem ráðgert er að halda fund með þeim þegar borgarstjórn hefur tekið endanlega ákvörðun um sameininguna og framtíðarsýn. "Það er mikil vinna framundan og við gerum ráð fyrir að sameiningarferlið taki að minnsta kosti allt næsta ár," sagði borgarstjóri. Í greinargerð með tillögunni segir að meginforsendur sameiningar séu aukin hagkvæmni og hagræðing til hagsbóta fyrir borgarbúa, möguleikar á sviði rannsókna, þróunar og markaðssóknar innanlands og erlendis og er lögð áhersla á að stofnuð verði ný deild innan fyrirtækisins til að annast þau verkefni. Fram kemur að nýja fyrirtækið yrði fjárhagslega sterkt auk þess sem þar væri að finna víðtæka fagþekkingu. Bent er á að horfur væru á vaxandi samkeppni í orkuframleiðslu og jafnvel orkudreifingu innan tíðar og að öflugt orkufyrirtæki yrði betur í stakk búið til að takast á við samkeppni en núverandi orkuveitur.

Alfreð Þorsteinsson benti á að nýja fyrirtækið myndi annast orkuöflun og orkudreifingu til 57% þjóðarinnar. Heildarvelta fyrirtækisins yrði á bilinu 7­8 milljarðar á ári og nefndi hann til samanburðar að velta Landsvirkjunar væri 8 milljarðar. Fastráðnir starfsmenn verða um 390 en hjá Landsvirkjun eru þeir 250. Eiginfjárstaða nýja fyrirtækisins er um 34 milljarðar en eiginfjárstaða Landsvirkjunar er 30 milljarðar. Sagði hann að árleg arðgreiðsla hita- og rafmagnsveitna í borgarsjóð hefði á undanförnum árum verið um 1,4 milljarðar en arðgreiðslur Landsvirkjunar til borgarinnar hefðu verið 204 milljónir.

Vatnsveitan ekki með

Borgarstjóri sagði að horfið hefði verið frá því að Vatnsveita Reykjavíkur yrði einnig með í sameiningunni en lítillega hafi verið kannað hvort ekki ætti að sameina að- og fráveitu borgarinnar eins og víða væri gert erlendis. Spurningunni um hvort ekki hafi komið til greina að stofna hlutafélag um nýja veitufyrirtækið, svaraði borgarstjóri á þá leið að það hefði ekki þótt fýsilegt. "Það skiptir auðvitað ekki miklu máli fyrir ríkið þegar það gerir sín fyrirtækið að hlutafélögum, þar sem þeir fá ýmist arð eða tekjuskatt af sínum fyrirtækjum í ríkissjóð," sagði borgarstjóri. "Fyrirtæki okkar eru undanþegin tekjuskatti sem borgarfyrirtæki en við fáum af þeim arð."

Morgunblaðið/Golli VILHJÁLMUR Þ. Vilhjálmsson, borgarfulltrúi, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, borgarstjóri, og Alfreð Þorsteinsson, borgarfulltrúi, kynntu tillögu um sameiningu Rafmagnsveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Reykjavíkur.