EVRÓPUSAMBANDIÐ fór fram á það á ráðherrafundi ríkja Evrópska efnahagssvæðisins í Lúxemborg í gær að EFTA-ríkin héldu áfram að greiða fé í þróunarsjóð, sem styrkt hefur fátækari svæði innan ESB. Þetta er gert að kröfu Spánverja, sem hóta að tefja hagsmunamál EFTA-ríkjanna á borð við aðild Íslands og Noregs að Schengen-vegabréfasamstarfinu,
Evrópusambandið krefst viðræðna um þróunarsjóð

Spánn hótar að

tefja Schengenaðild

EVRÓPUSAMBANDIÐ fór fram á það á ráðherrafundi ríkja Evrópska efnahagssvæðisins í Lúxemborg í gær að EFTA-ríkin héldu áfram að greiða fé í þróunarsjóð, sem styrkt hefur fátækari svæði innan ESB. Þetta er gert að kröfu Spánverja, sem hóta að tefja hagsmunamál EFTA-ríkjanna á borð við aðild Íslands og Noregs að Schengen-vegabréfasamstarfinu, aðild ríkjanna að Lyfjastofnun Evrópu í London og þátttöku þeirra í fimmtu rammaáætlun ESB um rannsóknir og þróun.

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins sýndu önnur ríki ESB sjónarmiðum Íslands og Noregs talsverðan skilning en fengust þó ekki til annars en að styðja kröfu Spánverja, enda er ákveðin hefð fyrir því innan ESB að styðja þannig hagsmunamál einstakra ríkja, gangi þau ekki gegn hagsmunum annarra.

Í drögum að ályktun fundarins hafði verið gert ráð fyrir jákvæðum ummælum um að flýta þyrfti viðræðum við Ísland og Noreg um aðild þeirra að Schengen, stefna þyrfti að aðild ríkjanna að Lyfjastofnuninni sem fyrst og tryggja að ekki yrði hlé á aðild þeirra að rannsókna- og þróunarsamstarfi ESB þegar svokölluð fimmta rammaáætlun tekur við af þeirri fjórðu. Allt þetta fengu Spánverjar fellt út úr ályktuninni.

Niðurstaða málsins varð sú að bæði ESB og EFTA vilja ræða um áframhaldandi stuðning EFTA til að "jafna efnahagslegt misræmi" á Evrópska efnahagssvæðinu. EFTA- ríkin gera það hins vegar að skilyrði að núverandi þróunarsjóði verði lokað, en segjast opin fyrir öðrum leiðum til að ná þessu markmiði, einkum í tengslum við fyrirhugaða stækkun sambandsins til austurs.

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins er ekki búizt við að afstaða Spánverja komi í veg fyrir að viðræður við Ísland og Noreg um aðild þeirra að Schengen hefjist síðar í mánuðinum. Næst þegar samningamenn þurfa að bera stöðu málsins undir aðildarríki ESB gæti hins vegar komið babb í bátinn.