DAVÍÐ Oddsson forsætisráðherra sagði í umræðum á Alþingi í gær að pottur hefði víða verið brotinn í Geirfinnsmálinu svokallaða og sagði það mikil vonbrigði að Hæstiréttur skyldi ekki hafa haft lagaskilyrði til þess að taka málið upp á nýjan leik í fyrrasumar.
Davíð Oddsson um Guðmundar- og Geirfinnsmál á Alþingi

Skynsamlegt að hafa

varnagla til öryggis

DAVÍÐ Oddsson forsætisráðherra sagði í umræðum á Alþingi í gær að pottur hefði víða verið brotinn í Geirfinnsmálinu svokallaða og sagði það mikil vonbrigði að Hæstiréttur skyldi ekki hafa haft lagaskilyrði til þess að taka málið upp á nýjan leik í fyrrasumar. Ráðherra sagði að ekki aðeins eitt dómsmorð hefði verið framið í Geirfinnsmálinu heldur mörg og gat þess ennfremur að þótt það hefði verið sársaukafullt fyrir íslenska dómstóla hefði það verið góð og nauðsynleg "hundahreinsun" eins og hann orðaði það, að fara í gegnum Geirfinnsmálið. "Ég tel eftir niðurstöðu Hæstaréttar að það sé skynsamlegt og eðlilegt að Alþingi velti þessu máli fyrir sér og hvort ekki sé rétt til öryggis að hafa varnagla af því tagi sem gerir kleift að taka upp mál sem kunna að hafa farið úrskeiðis á rannsóknar-, meðferðar- og dómstigum þess," sagði hann.

Tilefni þessara ummæla var frumvarp um réttarfarsdómstól sem Svavar Gestsson alþingismaður mælti fyrir á Alþingi í gær. Er í frumvarpinu lagt til að settur skuli á stofn dómstóll er nefnist réttarfarsdómstóll sem hefði það hlutverk að fjalla um kröfur um endurupptöku mála. "Málið er flutt að gefnu tilefni frá í fyrrasumar er Hæstiréttur hafnaði beiðni Sævars Ciesielskis um endurupptöku máls hans. Með þessu er ekki verið að gagnrýna niðurstöðu Hæstaréttar. Tilgangur þessa frumvarps er að hreyfa nauðsyn þess að Hæstiréttur þurfi ekki að fella úrskurði í eigin málum eins og nú háttar," segir m.a. í greinargerð frumvarpsins.

Hefur kynnt sér málið

"Mér sýnist augljóst að forsætisráðherra hefur kynnt sér málið og flestir sem hafa kynnt sér það hafa komist að svipaðri niðurstöðu," sagði Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður í samtali við Morgunblaðið aðspurður um ummæli forsætisráðherra. Hann var einnig spurður um hugmyndina um umræddan dómstól: "Ég er sammála því að menn fái að leggja beiðni um endurupptöku fyrir dómstóla. Það er mjög mikilvægt að það séu dómstólar sem taki slíka ákvörðun. Ef um verður að ræða sérdómstól, sem yrði væntanlega skipaður einum lögmanni, einum háskólakennara og einum dómara, þá er hann óháðari en þeir eru og er ekki að fjalla um eigin mál," sagði lögmaðurinn ennfremur og kvaðst mundu fagna tilkomu slíks dómstóls.

Mörg/10