MIKILVÆGT er að framleiðsla svokallaðrar Japansloðnu gangi vel á komandi vetrarvertíð. Markaðsstaða fyrir loðnu frá Íslandi er þokkaleg í Japan þrátt fyrir að framleiðsla á síðustu vertíð hafi gengið fremur illa. Þetta kom fram í máli Jóns Magnúsar Kristjánssonar, framkvæmdastjóra söluskrifstofu Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna í Tókýó, á markaðsráðstefnu SH í síðustu viku.
Mikilvægt að vinnsla loðnu

fyrir Japan gangi vel í vetur

Góðar horfur á mörkuðum þrátt

fyrir vonbrigði á síðustu vertíð

MIKILVÆGT er að framleiðsla svokallaðrar Japansloðnu gangi vel á komandi vetrarvertíð. Markaðsstaða fyrir loðnu frá Íslandi er þokkaleg í Japan þrátt fyrir að framleiðsla á síðustu vertíð hafi gengið fremur illa. Þetta kom fram í máli Jóns Magnúsar Kristjánssonar, framkvæmdastjóra söluskrifstofu Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna í Tókýó, á markaðsráðstefnu SH í síðustu viku.

Síðasta loðnuvertíð olli miklum vonbrigðum hér á landi, enda var útlit á mörkuðum í Asíu gott fyrir vertíðina. Vertíðin þróaðist íslenskum framleiðendum í óhag og um 70% framleiðslunnar voru smáloðna og gæðin fyrir neðan meðallag þegar á heildina er litið. Það hefur valdið því að framleiðendur í Japan eiga nú í erfiðleikum með að ná endum saman vegna smæðar og lítilla gæða hráefnisins frá Íslandi.

Góð loðnuvertíð í Kanada

Neysla í Japan hefur þó haldist nokkuð stöðug en hörð samkeppni ríkir á smásölumarkaðinum og verð hefur haldist lágt þrátt fyrir minna framboð en áætlað var. Útlit er fyrir að loðnustofninn í Kanada sé að rétta úr kútnum, en vertíðin þar gekk vel í sumar og reiknað er með að um 10 þúsund tonn af loðnu verði flutt til Japans. Gæði loðnunnar frá Kanada eru hins vegar misjöfn því hluti afurðanna er með átu. Verð fyrir Kanadaloðnu var svipað og fengist hefur fyrir loðnu frá Íslandi ef miðað er við helstu stærðarflokka. Japanskir framleiðendur hafa hins vegar misreiknað sig við verðlagningu á loðnu en þeir áttu aðeins von á 4­5 þúsund tonna framboði frá Kanada. Því lítur út fyrir að flestir innflytjendur muni tapa á viðskiptunum, því markaðsverð í Japan er lægra en sem nemur innflutningskostnaði.

Íslenska loðnan enn ráðandi

Að mati Jóns Magnúsar verða framleiðendur hér á landi að leggja enn meiri áherslu á góða flokkun fyrir næstu loðnuvertíð því framleiðsla Kanadamanna hafi það fram yfir framleislu Íslendinga að flokkunin er næstum 100%. Þar þekkist ekki 70­80% hrygnuflokkar.

Íslenska loðnan er þó enn ráðandi á Japansmarkaði og sagði Jón Magnús að þótt staðan yrði ekki eins sterk og áður haldi íslenskar vörur ennþá frumkvæðinu. Það væri því gífurlega mikilvægt að ná góðri vertíð í vetur þar sem meginframleiðslan verði vel flokkuð loðna eða á bilinu 50 til 60 stykki í kílói.

Litlar birgðir af loðnuhrognum

Sveiflur í framboði og verði hafa einkennt loðnuhrognamarkaðinn. Spurn eftir loðnuhrognum hefur minnkað og ársþörfin í Japan er nú talin vera um 3.000 til 3.500 tonn. Markaðurinn er þó aftur í jafnvægi þar sem framleiðsla á hrognum var hæfileg á síðustu vertíð. Fyrir vertíðina í vetur verða birgðir í Japan litlar og því ætti að vera hægt að auka framleiðsluna hér á landi. Jón Magnús sagði að framleiðendum yrði þó að vera ljóst að til að eiga von um góða afkomu þurfi að miða framleiðsluna við þörf markaðarins.