Vestmannaeyjum-Ársfundur Hafnarsambands sveitarfélaga ver haldinn í Vestmannaeyjum fyrir skömmu. Þingið var fjölmennt en meginviðfangsefni þess var umfjöllun um flutningaleiðir framtíðarinnar og framtíðarskipan hafnarmála.

Hafnarsambandsþing

í Vestmannaeyjum Vestmannaeyjum - Ársfundur Hafnarsambands sveitarfélaga ver haldinn í Vestmannaeyjum fyrir skömmu. Þingið var fjölmennt en meginviðfangsefni þess var umfjöllun um flutningaleiðir framtíðarinnar og framtíðarskipan hafnarmála. Í ályktun fundarins um flutningaleiðirnar er því beint til samgönguráðherra að mótuð verði stefna í flutningamálum bæði á sjó og landi og í framhaldi af því verði lögð fram flutningaáætlun áranna 2000 til 2015. Í greinargerð með ályktuninni kemur fram að kostnaður við rekstur og uppbyggingu hafnarmannavirkja sé mikill en kostnaður við siglingaleiðir lítill en aftur á móti sé kostnaður við lagningu og viðhald vega gífurlegur. Fram kom að tryggja þurfi jöfn samkeppnisskilyrði flutningsmáta og lögð var áhersla á að sjóflutningar væru umhverfisvænni en landflutningar. Fundurinn ályktaði að eðlilegt væri að notendur greiddu eðlilega kostnaðarhlutdeild í uppbyggingu og rekstri samgöngumannvirkja en slíkt hefði í för með sér aukna sjóflutninga á kostnað landflutninga. Varðandi framtíðarskipan hafnarmála ályktaði þingið að Hafnarsambandið myndi hafa frumkvæði að því að skipaður yrði nýr samráðshópur samgönguráðuneytis og sambandsins sem vinna eigi tillögur um breytta skipan hafnarmála. Í þeirri breyttu skipan verði haft að leiðarljósi að endurskoða yfirstjórn hafnarmála og leikreglur um samskipti ríkis og sveitarfélaga hvað varðar fjármögnun framkvæmda og ákvörðun gjaldskrár. Frelsi hafna í gjaldskrármálum verði aukið með það að markmiði að notendur greiði stærra hlutfall kostnaðar við mannvirkjagerð og þjónustu. Hafnir verði flokkaðar eftir fjárhagslegri getu og hafnargjöld ákveðin þannig að stærri hafnir geti staðið undir rekstri og nýframkvæmdum og settar verði reglur um hvernig styðja skuli litlar hafnir sem ekki hafa tekjur eða forsendur til að standa undir rekstri eða nýframkvæmdum. Ný stjórn Hafnarsambandsins var kosin á þinginu en hana skipa Árni Þór Sigurðsson, Reykjavík, sem er formaður, Pétur Jóhannsson, Keflavík, Halldór Jónsson, Ísafirði, Ísak Ólafsson, Þórshöfn, Gísli Gíslason, Akranesi, Brynjar Pálsson, Sauðárkróki, Ólafur M. Kristinsson, Vestmannaeyjum, og Sturlaugur Þorsteinsson, Höfn. Morgunblaðið/Sigurgeir Jónasson FUNDARMENN á Hafnarsambandsþinginu í Eyjum.