SKÓLAHALD á Hólum er nú komið í fullan gang og ber nú svo við að íslendingar eru í miklum meirihluta nemenda að þessu sinni en undanfarin ár hefur um helmingur komið erlendis frá. Víkingur Gunnarsson yfirkennari sagði að ástæður þessa mætti rekja til hitasóttarinnar í fyrravetur.
Hólaskóli Íslendingar í góðum meirihluta SKÓLAHALD á Hólum er nú komið í fullan gang og ber nú svo við að íslendingar eru í miklum meirihluta nemenda að þessu sinni en undanfarin ár hefur um helmingur komið erlendis frá. Víkingur Gunnarsson yfirkennari sagði að ástæður þessa mætti rekja til hitasóttarinnar í fyrravetur. Væntanlegir nemendur sem hugðust koma og starfa á Íslandi og fá æfingu í íslensku fyrir námið hafi ekki fengið vinnu vegna sóttarinnar. Eigi að síður hafi verið mikil ásókn Íslendinga í að komast á skólann og væri fjöldi nemenda svipaður og verið hefur. Nám við framhaldsdeildina hefst eftir áramót og hafa fimm sótt um og því eitt pláss laust enn, að sögn Víkings. Í endaðan nóvember verður haldið reiðkennaranámskeið fyrir réttindi C og B og sagði Víkingur að undirtektir hefðu verið mjög góðar og ljóst að af námskeiðinu verður. Sagði Víkingur að allir fjórir kennararnir sem eru með A-réttindi kæmu við sögu á þessu námskeiði, ýmist sem kennarar eða prófdómarar, en það væru þeir Eyjólfur Ísólfsson, Reynir Aðalsteinsson, Sigurbjörn Bárðarson og Benedikt Þorbjörnsson. Eyjólfur hefði umsjón með námskeiðinu en þetta munu að líkindum með síðustu námskeiðinum sem haldin verða með þessum hætti. Þá upplýsti Víkingur að verið væri að leggja síðustu hönd á nýja keppnisvöllinn sem hefði því miður ekki reynst nothæfur til þessa, en verið væri að skipta um efni í honum og yrði hann tilbúinn til notkunar nú á haustdögum.