UM TVEGGJA ára skeið hefur erindi er varðar hávaða og loftmengun við neðanverða Miklubraut verið innan veggja umhverfisráðuneytisins til afgreiðslu, það er ekki sæmandi fyrir háttvirtan umhverfisráðherra og ráðuneyti hans að horfa framhjá þessu mikla vandamáli sem íbúar við neðanverða Miklubraut verða að þola vegna skipulagsóreiðu hjá embættum undir stjórn og skipan borgarstjórans í Reykjavík.

Til umhverfisráðherra

UM TVEGGJA ára skeið hefur erindi er varðar hávaða og loftmengun við neðanverða Miklubraut verið innan veggja umhverfisráðuneytisins til afgreiðslu, það er ekki sæmandi fyrir háttvirtan umhverfisráðherra og ráðuneyti hans að horfa framhjá þessu mikla vandamáli sem íbúar við neðanverða Miklubraut verða að þola vegna skipulagsóreiðu hjá embættum undir stjórn og skipan borgarstjórans í Reykjavík.

Þrátt fyrir að umhverfisráðuneytið hafi sent borgarstjóranum í Reykjavík margítrekuð tilmæli um tafarlausar aðgerðir til úrbóta samkvæmt mengunarvarnareglugerð, þá hefur borgarstjórinn í Reykjavík svarað því til að ekki séu í gildi nein ákvæði um leyfilegan hávaða vegna umferðar gegnum eldri íbúðahverfi, ákvæði séu aðeins um leyfilegan hávaða í nýjum íbúðahverfum og hverfum þar sem miklar breytingar séu gerðar.

Borgarstjóri telur því ekki vera þörf á eða hefur ekki áhuga á að gera neitt til úrbóta, þó að fyrir liggi eftirfarandi umsagnir: Borgarverkfræðingur segir í skýrslu; Miklabraut, umferðar- og deiliskipulag frá nóvember 1996 þar er tekið fram á bls. 14: að "þannig teljast um 2030 manns vera þjakaðir af hávaða frá Miklubraut"; á bls. 15: "gera má ráð fyrir að allir íbúar við Miklubraut frá Eskihlíð að Stakkahlíð, alls 261 íbúi, séu innan hættumarkalínu og búi því við óásættanleg skilyrði að þessu leyti".

Í bréfi Hollustuverndar ríkisins frá 15. desember sl. segir: "Ljóst er að hávaðamengun er yfir viðmiðunarmörkum mengunarvarnareglugerðar við Miklubraut 13".

Í bréfi Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 2. desember er greint frá því að ástand í íbúð við neðanverða Miklubraut "sé óviðunandi og það þurfi að bæta". Ennfremur segir: "Heilbrigðiseftirlitið telur eðlilegt að borgaryfirvöld bregðist við vandamálum vegna umferðarhávaða í borginni ..."

Í umsögn Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur til borgarstjórans í Reykjavík dags. 14.08. 97 segir: "Í þessu tilviki mætti nota mælt MaxL 91,1 dB gildi til að meta ónæðið sem íbúarnir verða fyrir": Þetta á við jafnt að nóttu sem degi.

Í bréfi umhverfisráðuneytisins dags. 9.2. 1998 til borgarstjórans í Reykjavík segir: "Þrátt fyrir umræðu um málið og nauðsyn lagfæringa hefur ástandið ekki batnað og er ljóst af fyrirliggjandi gögnum að umferðarhávaði við neðanverða Miklubraut er yfir viðmiðunarmörkum og óviðunandi." Ennfremur segir: "Jafnframt beinir ráðuneytið þeim tillögum til Reykjavíkurborgar að borgaryfirvöld hlutist til um án tafar að dregið verði úr óþægindum íbúa við neðanverða Miklubraut eins og frekast er unnt þar til endanlegar úrbætur ná fram að ganga."

Af framansögðu er augljóst að umhverfisráðherra er skylt að taka til aðgerða samkv. mengunarreglugerð sem er samantekt úr lögum um heilbrigðis- og hollustuhætti, samin undir umsjá umhverfisráðuneytis og á ábyrgð umhverfisráðherra. Umhverfisráðherra getur ekki skyldu sinnar vegna samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð látið borgaryfirvöld segja sér fyrir verkum og afneita lögum og skyldum gagnvart íbúum borgarinnar.

Það er krafa á umhverfisráðherra að beyta ákvæðum mengunarreglugerðar þegar í stað, til sjálfsagðar verndar íbúum og fjölskyldulífi við neðanverða Miklubraut.

GUÐLAUGUR LÁRUSSON,

Miklubraut 13, Reykjavík.