SAMKVÆMT tillögum nefndar forsætisráðherra um breytingar á kjördæmaskipan og tilhögun kosninga til Alþingis verður landinu skipt upp í sex kjördæmi, þrjú þéttbýliskjördæmi og þrjú dreifbýliskjördæmi með 9 til 11 þingmenn hvert. Dreifbýliskjördæmunum fækkar og þau stækka og Reykjavíkur- og Reykjaneskjördæmi verður skipt.
Tillögur nefndar um breytingar á kosningalögum og kjördæmaskipan Fjórum núverandi kjördæmum skipt upp

Róttækar breytingar á mörkum núverandi kjördæmaskipanar líta dagsins ljós ef tillögur nefndar forsætisráðherra um kosningalög og kjördæmaskipan verða samþykktar, en í nefndinni áttu sæti fulltrúar allra þingflokka.

SAMKVÆMT tillögum nefndar forsætisráðherra um breytingar á kjördæmaskipan og tilhögun kosninga til Alþingis verður landinu skipt upp í sex kjördæmi, þrjú þéttbýliskjördæmi og þrjú dreifbýliskjördæmi með 9 til 11 þingmenn hvert. Dreifbýliskjördæmunum fækkar og þau stækka og Reykjavíkur- og Reykjaneskjördæmi verður skipt. Gert er ráð fyrir að hámarksmisvægi milli kjördæma megi ekki vera meira en 1 á móti 2 og verði ákvæði þar að lútandi sett inn í stjórnarskrá. Þá verður persónukjöri gefið aukið vægi og nefndin hvetur til þess að þingmenn í dreifbýliskjördæmunum fái aukna aðstoð, þar sem aðstaða þeirra til að sinna kjósendum verði önnur en áður.

Í skýrslu nefndarinnar til forsætisráðherra er fjallað um ýmsa möguleika á því að breyta kjördæmaskipaninni, allt frá því að setja á laggirnar einmenningskjördæmi til þess að gera allt landið að einu kjördæmi. Þá er fjallað um ýmsa möguleika á að færa til og breyta núverandi kjördæmamörkum. Meginmarkmiðin, sem nefndin setti sér, voru að gera kosningakerfið einfalt og auðskiljanlegt; að draga úr misvægi atkvæða þannig að hlutfall kjósenda að baki hverju þingsæti þar sem munurinn er mestur á milli þingsæta yrði sem næst 1:1,5 til 1:1,8; að þingsætafjöldi í hverju kjördæmi yrði sem jafnastur; að áfram yrði jöfnuður á milli stjórnmálasamtaka á landsvísu til að fjöldi þingsæta hvers flokks yrði í sem bestu hlutfalli við kjósendatöluna og að þingmenn yrðu áfram 63 eins og nú er.

Kosningakerfið einfaldara

Nefndin segir að rökin fyrir því að skipta landinu upp í 6-7 kjördæmi, 3-4 á landsbyggðinni og þrjú á höfuðborgarsvæðinu með áþekkum fjölda þingsæta í hverju þeirra, séu einkum þau að kosningakerfið verði einfaldara og ekki þurfi að beita flóknum aðferðum við úthlutun þingsæta eins og nú sé. Í öðru lagi að ef fjöldi kjördæmasæta í hverju kjördæmi sé nokkurn veginn sá sami þurfi ekki nema níu jöfnunarsæti í heild til þess að tryggja jöfnuð milli stjórnmálasamtaka á landsvísu. Ef kjördæmin yrðu fleiri með færri þingsætum eða eitt þeirra miklu fámennara en önnur þyrfti að fjölga jöfnunarsætum eða taka upp flóknari úthlutunarreglur en d'Hondt til að tryggja jöfnuð milli stjórnmálasamtaka. Í þriðja lagi verði nokkurn veginn jafnerfitt fyrir framboðslista að ná kjördæmasæti hvar sem er á landinu miðað við hlutfall kjósenda og loks að þingmannahópar kjördæmanna verði tiltölulega jafnir að stærð sem ætti að tryggja jafnræði á milli þeirra. Helstu ókostirnir séu hins vegar þeir að stækkun kjördæmanna valdi því að erfiðara verði að halda uppi persónulegum samskiptum milli þingmanna og kjósenda og núverandi kjördæmi séu stjórnsýsluumdæmi sem erfitt sé að hrófla við.

Eftir ítarlega umfjöllun um þessar leiðir og hvaða kostir séu fyrir hendi varðandi breytingar á kjördæmamörkum sem ná ofangreindum markmiðum gerir nefndin megintillögu um að fjórum af núverandi kjördæmum verði skipt, þ.e. Reykjavíkur-, Reykjanes-, Austurlands- og Norðurlandskjördæmi vestra og kjördæmin verði sex í stað átta. Nýju kjördæmin verða Norðvesturkjördæmi, sem tekur yfir Vesturland, Vestfirði og Húnavatnssýslur; Norðausturkjördæmi, sem tekur yfir Skagafjarðarsýslu, Siglufjörð, Norðurland eystra og Múlasýslur; Suðurkjördæmi, sem tekur yfir Austur- Skaftafellssýslu, Suðurland og Suðurnes; Suðvesturkjördæmi, sem tekur yfir Reykjanes án Suðurnesja og Reykjavík vestur og Reykjavík austur.

10 uppbótarsæti

Kjördæmasæti yrðu 53 og uppbótarsæti yrðu 10 talsins. Þingmenn í hverju kjördæmi yrðu 9 til 11, fæstir í Norðvesturkjördæmi 9 og 10 í Suðurkjördæmi, en 11 í hinum fjórum kjördæmunum. Þar eru einnig tveir uppbótarþingmenn samanborið við einn í tveimur fyrstnefndu kjördæmunum. Kjósendur að baki þingmanni yrðu fæstir í Norðvesturkjördæmi 2.032, en flestir í Suðvesturkjördæmi 3.665. Mesta misvægi milli kjördæma yrði 1:1,80.

Nefndin segir að það sem mæli einkum með þessari skipan umfram aðra kosti sé að það yrði of stórt skref að steypa þremur af núverandi kjördæmum saman í eitt kjördæmi, þ.e. Vesturlandskjördæmi, Vestfjarðakjördæmi og Norðurlandskjördæmi vestra. Þá sé æskilegt að Akureyri sem höfuðstaður Norðurlands verði ekki í jaðri kjördæmis heldur meira miðsvæðis. Einnig segir að ekki hafi verið unnt að færa mörk Vestur- og Norðausturkjördæmis meira til vesturs vegna þess að með því móti yrði annað hvort að fækka þingmönnum í sjö í Vesturkjördæmi eða farið fram úr þeim mörkum sem nefndin taldi viðunandi í misvægi milli atkvæða kjósenda. Þá segir að ef mörk Vestur- og Norðausturkjördæma yrðu færð lengra til vesturs yrði Vesturkjördæmi áberandi fámennast og það gæti kallað á fjölgun jöfnunarsæta til að tryggja jöfnuð milli stjórnmálasamtaka. Loks segir að ef Norðausturkjördæmi næði frá Vatnsskarði til Skeiðarár yrði kjördæmið mjög stórt og jafnfram mun fjölmennara en Suðurkjördæmi og af þeim sökum sé lagt til að A- Skaftafellssýsla tilheyri Suðurkjördæmi.

Eins og fyrr sagði leggur nefndin til að D'Hondt reiknireglunni verði beitt. Jöfnunarsætin verða öll bundin kjördæmum og úthlutað á hlutfallstölur og horfið er frá þeirri reglu að samtök þurfi að fá kjördæmasæti til að koma til greina við úthlutun jöfnunarsæta. Í þess stað er miðað við að stjórnmálasamtök sem fá 5% atkvæða á landinu öllu geti fengið jöfnunarsæti, hvort sem þau hafa fengið kjördæmasæti eða ekki.

Hægt að breyta kjördæmamörkum í Reykjavík

Þá leggur nefndin áherslu á að breytingar á kjördæmaskipaninni nú geti orðið til nokkurrar framtíðar og lagt er til að stjórnarskrárákvæði um kjördæmaskipan verði þannig orðað að gera megi breytingar á kjördæmamörkum til að bregðast við breyttri íbúadreifingu í landinu innan einhverra ákveðinna marka og að í ákvæðinu sé einnig heimilt að breyta þingsætatölu kjördæma ef veruleg röskun verði á íbúafjölda. Þá er einnig gerð tillaga um að setja í stjórnarskrá ákvæði um breytingar sem gera skuli á kosningaskipaninni án nýrra laga og stjórnarskrárbreytinga. Annars vegar er um að ræða heimild til handa löggjafanum að gera breytingar á þingmannatölu í kjördæmum ef mismunur á kjósendafjölda að baki hverju þingsæti er orðinn meiri en 1:2 og hins vegar heimild til handa landskjörstjórn að breyta mörkum milli Reykjavíkurkjördæmanna eftir búsetuþróun í höfuðborginni, þannig að henni verði skipt upp í nokkurn veginn jafnstór kjördæmi.

Nefndin leggur einnig til að áfram verði heimilt að breyta kjörseðli með því að breyta röð frambjóðenda eða strika þá út og að vægi þessara aðgerða kjósenda verði aukið. Eru gerðar ákveðnar tillögur í þeim efnum sem í meginatriðum eru þær sömu og giltu fram til breytinga á kosningalögunum 1959, en nefndin tekur jafnframt fram að henni hafi ekki gefist tækifæri til þess að ræða þennan þátt kosningakerfisins jafn rækilega og hún hefði kosið.

Loks segir í skýrslu nefndarinnar að verði tillögur hennar að lögum sé ljóst að aðstaða þingmanna til að sinna kjósendum í hinum landfræðilega stærri kjördæmum verði önnur en áður. Nefndin hvetur því til þess að aðstoð við þingmenn úr þessum kjördæmum verði aukin, til dæmis þannig að þingmenn fái styrk til að njóta liðsinnis starfsmanns eða til annars konar aðstoðar.

Þá tekur nefndin ekki afstöðu til þess hvenær skuli kosið fyrst samkvæmt hinni nýju skipan. Ef horfið yrði að því að kjósa sem fyrst eftir nýju kerfi, t.a.m. næsta haust, yrði að taka sjálfstæða ákvörðun um það.

Í nefndinni áttu sæti Friðrik Sophusson, formaður, sem var skipaður án tilnefningar, og fulltrúar þeirra þingflokka sem voru á Alþingi þegar nefndin var skipuð, Geir H. Haarde, Valgerður Sverrisdóttir, Guðmundur Árni Stefánsson, Svavar Gestsson og Guðný Guðbjörnsdóttir.

Skýrslu nefndarinnar í heild með kortum og fylgiskjölum er að finna á Fréttavef Morgunblaðsins, www.mbl.is

Morgunblaðið/Golli NEFNDIN kynnti skýrslu um kjördæmamálið á fundi með fréttamönnum í gær.