Allt vandað frá Bretum Í takt við tímann nefnist breskur myndaflokkur í Sjónvarpinu á sunnudögum eftir sögum breska rithöfundarins Anthonys Powells. Er þar rakin saga fjögurra pilta sem hittast í Eton-skólanum um 1920 og eru enn nánir vinir hálfri öld síðar.
Allt vandað frá Bretum

Í takt við tímann nefnist breskur myndaflokkur í Sjónvarpinu á sunnudögum eftir sögum breska rithöfundarins Anthonys Powells. Er þar rakin saga fjögurra pilta sem hittast í Eton-skólanum um 1920 og eru enn nánir vinir hálfri öld síðar. Í aðalhlutverkum eru stórleikarar á borð við Edward Fox, John Gielgud og Miröndu Richardson en alls koma um 100 leikarar fram í myndunum.

Allen enn í kvennavandræðum

Úrvalsmyndin Reyndu aftur eða "Play It Again Sam" frá 1972 verður sýnd á Stöð 2 mánudaginn 26. október. Woody Allen er handritshöfundur og í aðalhlutverki ásamt Diane Keaton og Tony Roberts. Humphrey Bogart skýtur upp kollinum í myndinni eins og í draumi og ráðleggur kvikmyndafíklinum Allen Felix í kvennamálum þar sem gengur á ýmsu.

Meistararnir glíma

Baráttan í Meistarakeppni Evrópu er hörð. Sýn verður með útsendingu frá viðureign Arsenal og Dynamo Kiev á Wembley og strax að henni lokinni verður skipt yfir á Ólympíuleikvanginn í München þar sem Bæjarar taka á móti Barcelona.

Sögur úr heimabyggð

Sagan Bróðir minn Ljónshjarta eftir Astrid Lindgren er lesin í Söguhorni barnanna á Rás 1 upp úr 9.30 og endurflutt 19.30 á Rás 2. Á mánudagsmorgnum kl. 10.15 munu svo grunnskólanemendur og kennarar þeirra sjá um þáttinn Útvarp grunnskóli og fjalla um sína heimabyggð. Samhliða þáttunum verður teiknimyndasamkeppni í samvinnu við Námsgagnastofnun.