Ritgerðarsamkeppni fyrir ungt fólk Meginþema er Ísland tækifæranna STJÓRN Sambands ungra sjálfstæðismanna hefur efnt til ritgerðarsamkeppni undir yfirskriftinni Ísland tækifæranna. Áslaug Hulda Jónsdóttir sér um undirbúning ritgerðasamkeppninnar.
Ritgerðarsamkeppni fyrir ungt fólk Meginþema er Ísland tækifæranna

STJÓRN Sambands ungra sjálfstæðismanna hefur efnt til ritgerðarsamkeppni undir yfirskriftinni Ísland tækifæranna. Áslaug Hulda Jónsdóttir sér um undirbúning ritgerðasamkeppninnar.

"Aðdragandinn að þessari ritgerðarsamkeppni er að Gallup gerði skoðanakönnun fyrir Samband ungra sjálfsstæðismanna og kannaði þar hvaða augum ungt fólk á aldrinum 16-35 ára liti á landið okkar Ísland.

Niðurstöðurnar voru sláandi en þar kom í ljós að ungt fólk gefur Íslandi ekki háa einkunn sem landi tækifæranna. Meðaleinkunn sem landið fékk var 5,7 og rúmlega 60% þeirra sem tóku afstöðu fannst líklegt að tækifæri sín myndu aukast með því að flytjast til annars lands.

Okkur hjá Sambandi ungra sjálfstæðismanna leist ekkert á þær fregnir að ungum Íslendingum finnist möguleikar þeirra aukast með því að flytja til útlanda. Í kjölfar þessara niðurstaðna ákváðum við því að reyna að koma með nýjar hugmyndir sem gætu fært Ísland nær því að vera land tækifæranna í hugum ungs fólks. Það er mikilvægt að Ísland mótist eftir þörfum og vilja einstaklinganna. Ritgerðarsamkeppnin sem stjórn SUS ákvað að efna til er þáttur í þeirri vinnu."

­ Setjið þið einhverja skilmála um efnistök í samkeppninni?

"Þátttakendur hafa frjálsar hendur með efnistök en meginþemað er Ísland tækifæranna. Við vonumst auðvitað til að þar komi fram hvernig ungt fólk vill að Ísland sé og hvaða væntingar það hefur til framtíðar."

Áslaug Hulda segir að grunnhugsunin á bakvið þessa ritgerðasamkeppni sé að fá ungt fólk til að hugsa um það hvernig land það vill byggja og að fá fólk til að velta fyrir sér stjórnmálum í þessu samhengi. "Við gerum okkur auðvitað vonir um að í ritgerðunum komi fram ferskar og nýstárlegar hugmyndir sem hægt er að koma á framfæri í framtíðinni. Við erum í þessu sambandi ekki að tala um einhverjar skammtímalausnir heldur hugmyndir sem til lengri tíma litið geta tryggt að Ísland sé land tækifæranna í hugum ungs fólks."

­ Hverjum er ritgerðarsamkeppnin ætluð?

"Allir á aldrinum 16-35 ára geta tekið þátt í þessari ritgerðarsamkeppni."

Þegar Áslaug Hulda er spurð hvort skilyrði sé að unga fólkið sé starfandi í Sambandi ungra sjálfstæðismanna segir hún það af og frá. "Samband ungra sjálfstæðismanna hélt málefnaþing um síðustu helgi þar sem ungir sjálfstæðismenn fengu tækifæri tl að fjalla um Ísland tækifæranna. Þar lögðum við lokahönd á ályktanir sem málefnanefndir SUS hafa lagt drög að síðasta hálfa árið í tengslum við Ísland tækifæranna. Ungir sjálfstæðismenn hafa því gert nokkuð af því að velta þessum málum fyrir sér og með ritgerðasamkeppninni viljum við ekki síður ná athygli þeirra sem ekki eru félagar í SUS."

Áslaug Hulda segir að skilafrestur renni út 26. október næstkomandi og hún bendir á að ritgerðin megi ekki vera lengri en fimm blaðsíður.

"Við mat þeirra sem eru í dómnefnd verður litið til frumlegrar hugsunar, rökleiðslu, málfars og alls þess sem prýtt getur góða ritsmíð. 100.000 krónur verða veittar fyrir bestu ritgerðina.

Dómnefndina skipa Friðrík Sophusson formaður dómnefndar, Eyþór Arnalds framkvæmdastjóri OZ og borgarfulltrúi, Hanna Birna Kristjánsdóttir fulltrúi SUS og stjórnmálafræðingur, Inga Lind Karlsdóttir blaðamaður, Jakob F. Ásgeirsson rithöfundur og Kári Stefánsson framkvæmdastjóri íslenskrar erfðagreinigar."

­ Munið þið kynna þær hugmyndir sem fram koma í þessum ritgerðum?

"Við áskiljum okkur rétt til að nota efni innsendra ritgerða að vild. Markmið okkar er auðvitað að koma á framfæri góðum og nýstárlegum hugmyndum sem berast. Þá munum við leggja áherslu á að fá verðlaunaritgerðina birta."

­ Hvernig nálgast lesendur nánari upplýsingar um samkeppnina?

"Nánari upplýsingar er að finna á Netinu en slóðin er www.xd.is/sus/island. Þá er netfang Áslaugar khi8182 þ khi.is."

Áslaug Hulda Jónsdóttir er fædd í Reykjavík árið 1976 og uppalin í Garðabæ.

Hún er nemi við Kennaraháskóla Íslands og er fyrsti varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Garðabæjar.

Áslaug Hulda var um skeið formaður Hugins sem er félag ungra sjálfstæðismanna í Garðabæ og situr nú í stjórn félagsins. Hún er einnig í stjórn SUS.

Hún er verkefnisstjóri Jafningjafræðslunnar.

Unnusti Áslaugar Huldu er Sveinn Áki Sveinsson nemi.Áslaug Hulda Jónsdóttir