VELVAKANDA barst bréf frá Brynjari sem býr í Noregi og biður hann um aðstoð við leit að íslenskum ættingjum sínum. Einu upplýsingarnar sem hann hefur er að forfaðir hans, Brynjar, og kona hans, "Olaug Olavsdatter", hafi flutt til Noregs í kringum 1799. Þeir sem kannast við þetta og hefðu einhverjar upplýsingar eru beðnir að hafa samband við: Brynjar W. Johansen, Plogv.

Ættingja leitað

VELVAKANDA barst bréf frá Brynjari sem býr í Noregi og biður hann um aðstoð við leit að íslenskum ættingjum sínum. Einu upplýsingarnar sem hann hefur er að forfaðir hans, Brynjar, og kona hans, "Olaug Olavsdatter", hafi flutt til Noregs í kringum 1799. Þeir sem kannast við þetta og hefðu einhverjar upplýsingar eru beðnir að hafa samband við:

Brynjar W. Johansen,

Plogv. 14, Manglerud, 0679 Osló, Norge.

Slæm þjónusta Landssímans

ÉG vil lýsa undrun minni og hneykslan á þjónustu Landssímans og framkomu vissra aðila er sjá eiga um bilanaþjónustu í minn garð. Landssíminn auglýsir "Láttu símann vinna fyrir þig ­ notaðu tímann í annað", og á ég þar við að þegar er á tali í því númeri sem þú ert á hringja í, þá getur þú ýtt á 5 og þjónustubeiðnin er móttekin. Síðan leggur þú á og síminn vinnur fyrir þig. Til að geta þetta verður þú að vera með tónval, ekki skífuval. Ég hef talsvert notað þessa þjónustu en í byrjun september virkaði þetta ekki. Taldi ég það þá tilfallandi og gerði ekkert í málinu strax. Eftir nokkurn tíma hringdi ég í bilanir og kvartaði yfir þessu og þvílíkt og annað eins sem ég fékk framan í mig! Sem dæmi þá átti að vera illa lagt á í viðkomandi númerum, ég átti að hafa ýtt óvart á takka sem eru á hlið eða undir símanum. Þessi takki er ekki til staðar á þeim tveim símum sem ég er með. Mér var ekki trúað. Loks fékk ég viðgerðarmann til mín eftir mikið þref, 23. september, en var jafnframt bent á að hræðilegt væri að vera að fá viðgerðarmann til þess eins að ýta til einum takka, það væri svo dýrt. Viðkomandi viðgerðarmaður staðfesti að allt það sem ég var búin að segja við þessa háu herra væri rétt. Hann prófaði sinn síma og hann virkaði ekki á fimmuna. Ég fékk lánaðan fullkomnari síma í næsta húsi. Sama sagan, fimmið virkaði ekki. Viðgerðarmaðurinn var ráðþrota. Sagðist ætla að tala við ónefndan yfirmann og sá myndi hafa samband við mig. Eftir viku þögn hringdi ég aftur, ekkert hafði verið gert í málinu. Þá var annar viðgerðarmaður látinn tala við mig. Hann sagðist ekki trúa því að hinn viðgerðarmaðurinn hefði reynt sinn síma. Sem þýðir, að hann segir mig ljúga.

Svo geta þessir háu herrar látið konur hringja samdægurs til að bjóða aukna þjónustu fyrir GSM- símann.

Við hjónin borgum af fjórum sínum, tveimur heimasímum, GSM-síma og farsíma. Vil ég benda forráðamönnum Landssímans á að bjóða starfsfólki hjá bilanaþjónustu á námskeið í samskiptum. Ég vil bara segja áfram Tal og komi önnur stöð sem fyrst fyrir heimasíma. Jæja, saga mín um samskipti mín við bilanaþjónstu Landssímans er efni í heila bók en hér læt ég staðar numið.

Óánægður viðskiptavinur.

Fyrirspurn til RUV

GETUR fréttadeild RUV ekki komið með úrslit íþróttaviðburða dagsins í fjögurfréttunum á laugardögum, eins og t.d. úrslit úr enska boltanum? Það er aldrei minnst á úrslitin fyrr en um kvöldið.

Önnur spurning: Á ekki að sýna frá þýska fótboltanum í vetur?

GFJ. Tapað/fundið

Úr í óskilum

KVENGULLÚR fannst á Dunhaga sl. föstudag. Upplýsingar í síma 551 5105.

Lyklar í óskilum

2 LYKLAR á langri keðju með lás í endann fundust við Kennaraskólann sl. sunnudag. Upplýsingar í síma 553 5997 eftir kl. 17.

Dýrahald

Týndur páfagaukur

LJÓSGULUR og grár páfagaukur (gári) flaug út um glugga í vesturbænum. Þeir sem hafa orðið varir við hann hafi samband í síma 551 8041 (Inga).