SIGRÚN PÁLSDÓTTIR

Sigrún (Stefanía) Pálsdóttir fæddist í Sauðanesi á Ásum í Húnaþingi 12. febrúar 1917. Hún lést í Reykjavík 26. september síðastliðinn. Foreldrar hennar voru hjónin Sesselja Þórðardóttir, f. 1888, d. 1942, og Páll Jónsson, f. 1875, d. 1932, bóndi í Sauðanesi. Systkini Sigrúnar eru: Jón póstfulltrúi, f. 1914, d. 1985; Páll Sigþór lögmaður, f. 1916, d. 1983; Þórður bóndi, f. 1918; Gísli bóndi, f. 1920; Hermann prófessor, f. 1921; Helga verslunarmaður, f. 1922; Þórunn kennari, f. 1924; Ólafur Hólmgeir múrarameistari, f. 1926; Anna húsmóðir, f. 1928, d. 1956; Haukur bóndi, f. 1929; og Ríkarður tannlæknir, f. 1932.

Hinn 4. apríl 1941 giftist Sigrún Jóhann Pétri Einarssyni frá Litlu-Gröf í Borgarhreppi, f. 14.11. 1908. Jóhann starfaði í 46 ár hjá Ölgerð Egils Skallagrímssonar, til 1986. Hann lést 11.11. 1990. Börn þeirra eru: 1) Páll verkfræðingur, f. 1941, maki Hólmfríður Pálsdóttir. Börn þeirra eru: Axel og Sigrún. 2) Magnús Einar, f. 1942, d. 1943. 3) Magnús Einar verkfræðingur, f. 1944, maki Judith Anne Taylor. Synir þeirra eru: Matthew Peter, Eli Magnús og Luke Taylor. 4) Gunnar lögfræðingur, f. 1946, maki Hrönn Guðrún Jóhannsdóttir. Börn þeirra eru Jóhann Bjarni, Elín og Bjarni Stefán. 5) Skúli verkfræðingur, f. 1948. Fyrrv. maki Bóthildur Steinþórsdóttir. Börn þeirra eru: Einar, Hákon og Sigrún Huld. 6) Erlendur fóðurfræðingur, f. 1950, maki Ásta Friðjónsdóttir. Synir þeirra eru: Birgir, Egill og Stefán. 7) Gunnhildur deildarstjóri, f. 1952, Barn: Ívar Jóhann Arnarson.

Sigrún var í föðurhúsum til ársins 1934. Hún stundaði ýmis lausastörf ásamt námi í Reykholti 1934 til 1936 og í eldri deild Samvinnuskólans 1938 til 1939. Hún stundaði nám í Kennaraskóla Íslands og tók kennarapróf vorið 1963. Hún var þingritari Alþingis 1939 til 1943 og starfandi húsmóðir í Reykjavík þar til hún hóf kennarastörf við Vogaskóla haustið 1963. Þar kenndi hún til ársins 1976. Síðan starfaði hún við Fellaskóla til ársins 1986.

Útför Sigrúnar fer fram frá Fossvogskirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.