Sigrún Pálsdóttir Á næstsíðasta ári fyrri heimsstyrjaldarinnar fæddist hjónunum í Sauðanesi í Húnaþingi þriðja barnið, stúlka sem skírð var Sigrún Stefanía. Barnahópurinn átti eftir að stækka eftir því sem árin liðu. Börnin urðu tólf og rekur sá lestina, er þetta ritar. Sigrún lifir einhverja þá mestu breytinga- og umbrotatíma sem íslenska þjóðin hefur gengið í gegnum á ellefu alda vegferð sinni, stökki frá moldarkofum í stein- og glerhallir, frá reiðingshestum í gámavörubíla og frá strjálum vikublöðum í hundrað síðna dagblöð auk sjónvarps og internets. Kreppuárin sem Sigrún upplifði á táningsárum sínum hafa án efa haft mikil áhrif á líf hennar seinna meir. Framundir tvítugt var Sigrún heima í Sauðanesi. Þar var mannmergð og þröngt í búi en heimilisfaðirinn lést 1932. Strax á táningsaldri fór Sigrún að ná í þá vinnu sem tiltæk var, sláturhússtörf, heimilisaðstoð og fleira er til féll, en á vinnumarkaðnum var ekki um auðugan garð að gresja. Sigrún aflaði sér þeirrar menntunar sem kostur var á við hennar aðstæður. Hún gekk í Alþýðuskólann í Reykholti og einnig Samvinnuskólann. Hún lærði hraðritun og starfaði í nokkur ár á Alþingi sem hraðritari en þá voru allar ræður þingmanna skrifaðar upp. Síðar tjáði hún mér að sig hefði langað afar mikið í menntaskóla en fjárhagsástæður leyfðu það ekki.

Í apríl 1941 giftist Sigrún Jóhanni P. Einarssyni starfsmanni í Ölgerð Egils Skallagrímssonar. Þeim varð sjö barna auðið sem lifa öll utan einn drengur sem lést í frumbernsku.

Þegar börnin voru komin nokkuð á legg lét hún sinn gamla draum rætast og settist í Kennaraskólann þar sem hún lauk námi 1963. Sigrún starfaði síðan við kennslu við barnaskóla í Reykjavík til ársins 1976 er hún lét af störfum. Allmörg síðustu ár hafði Sigrún barist við sjúkdóm þann er kenndur er við Alzheimer og var hún af þeim sökum á hjúkrunarheimili síðasta hálfan annan áratug ævi sinnar.

Mér er ljúft að þakka fyrir þann tíma sem Sigrún systir skaut yfir mig skjólshúsi og gaf mér að borða af litlum efnum á menntaskólaárum mínum. Ég hefi oft dáðst að þrautseigju og dugnaði hennar við að koma krökkum sínum til mennta. Má vera að hún hafi viljað bæta upp þá menntun sem hún fór á mis við í uppvexti sínum.

Ég votta börnum og afkomendum Sigrúnar hluttekningu mína og minnar fjölskyldu. Hvíl þú í friði.

Ríkarður Pálsson.