Sigrún Pálsdóttir Amma mín, Sigrún, er dáin. Á stundu sem þessari eru margar minningar sem sækja að. Ég minnist þess sérstaklega þegar við systkinin vorum í heimsókn hjá afa og ömmu í Fýlsó. Þar var ávallt tekið vel á móti okkur krökkunum og fengum við Malt, Sinalco, Spur eða Appelsín, sem okkur þótti meiriháttar.

Amma var alltaf á fleygiferð, enda hörkudugleg kona. Það var líka sama hvað hún tók sér fyrir hendur. Alltaf var það af mikilli ákveðni og dugnaði sem hjálpaði henni mikið á lífsleiðinni.

Síðustu árin dvaldi amma á Hjúkrunarheimilinu Eir í Grafarvogi, þar sem einstaklega vel var hugsað um hana.

Amma, ég þakka fyrir að hafa kynnst þér og allar góðu stundirnar sem við áttum saman.

Ég fel í forsjá þína,

Guð faðir, sálu mína,

því nú er komin nótt.

Um ljósið lát mig dreyma

og ljúfa engla geyma

öll börnin þín svo blundi rótt.

Nú veit ég að þér líður vel. Hafðu þökk fyrir allt. Hvíl í friði.

Þín sonardóttir,

Elín Gunnarsdóttir.