GEISLAVARNIR brezka ríkisins hafa að sögn The Daily Telegraphhvatt til þess að teknar verði upp viðræður milli ríkisstjórnarinnar og farsímaframleiðenda og að almenningi verði gerð ljós sú hætta, sem kann að felast í notkun farsíma.
Vilja viðræður um farsíma London. Morgunblaðið. GEISLAVARNIR brezka ríkisins hafa að sögn The Daily Telegraph hvatt til þess að teknar verði upp viðræður milli ríkisstjórnarinnar og farsímaframleiðenda og að almenningi verði gerð ljós sú hætta, sem kann að felast í notkun farsíma. Þessi hvatning kemur í kjölfarið á rannsókn, sem gerð var fyrir Panoramaþátt BBC, en hún leiddi í ljós að geislun frá tilteknum farsímum var mjög mismunandi, en vel innan þeirra hættumarka, sem það opinbera hefur sett. Samt hafa vísindamenn enn vakið athygli á því, að rannsóknir þurfi að framkvæma á farsímanotkun, einkum hvort samband er á milli hennar og heilaæxla. Hvetja þeir fólk eindregið til þess að takmarka farsímanotkunina sem mest og nota síma, sem lítil geislun er frá og þá með heyrnartækjum, sem gera mönnum kleift að halda símanum frá höfðinu. The Daily Telegraph segir, að bandarískir farsímaframleiðendur hafi verið kallaðir á leynilegan fund öryggiseftirlitsins og hefur eftir George Carlo, forstöðumanni rannsóknaráðs farsímaframleiðenda, að það sé ekki lengur ábyrg afstaða að afneita allri hættu. Þá var í brezkum sjónvarpsfréttum skýrt frá sænskri rannsókn á vegum farsímaframleiðenda, sem sögð var hafa leitt í ljós, að hættan á heilaæxli er 2,5 sinnum meiri hjá þeim, sem nota farsíma en þeim, sem láta þá vera.