UM 700 fyrirtæki á sviði upplýsingatækni í Svíþjóð, Danmörku, Skotlandi, Noregi og á Íslandi taka nú þátt í verkefni til eins árs er miðar að uppbyggingu þjónustu fyrir starfsgreinina, segir í Íslenskum iðnaði, fréttabréfi Samtaka iðnaðarins.
Evrópusambandið fjármagnar samstarfsverkefni

Rafrænn tæknigarður fyrir upplýsingatækni

UM 700 fyrirtæki á sviði upplýsingatækni í Svíþjóð, Danmörku, Skotlandi, Noregi og á Íslandi taka nú þátt í verkefni til eins árs er miðar að uppbyggingu þjónustu fyrir starfsgreinina, segir í Íslenskum iðnaði, fréttabréfi Samtaka iðnaðarins. Verkefnið nefnist VIKING og er á vegum NSA, Northern Software Alliance, en það er samstarf samtaka í upplýsingatækniiðnaði í norðanverðri Evrópu er hófst í ársbyrjun 1998.

Verkefnið er fjármagnað af Evrópusambandinu og eiga Samtök iðnaðarins aðild að því. Var því ýtt úr vör í kjölfar þess að leitað var með útboði eftir hugmyndum til að nýta upplýsinga- og fjarskiptatæknina við að gera rannsóknir og þekkingu aðgengilegar fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Einnig er markmiðið að stuðla að ýmiss konar samstarfi fyrirtækja í tilteknum starfsgreinum.

NSA býðst til að koma upp svonefndum "Virtual Technology Park" eða rafrænum tæknigarði með fimm öflugum netþjónum, einum í hverju þátttökulandi, og yrðu þeir tengdir um Netið. Aðgangur verður ýmist opinn eða lokaður öðrum en þátttökufyrirtækjum og notuð til þess aðgangsstýring. Stefnt er að því að garðurinn verði kominn í notkun um næstu áramót.

Markaðstorg verður til

Verið er að gera þarfagreiningu meðal upplýsingatæknifyrirtækja með tilliti til þjónustuþátta sem hægt er að nálgast í tæknigarðinum. Er líklegt að áhersla verði auk annars lögð á rafrænt upplýsingasafn. Er þá m.a. átt við staðlaða hugbúnaðarsamninga, staðla sem tengjast upplýsingatækni, höfundar- og hugverkarétt, niðurstöður prófana á hugbúnaði og tæknikerfum og lög og reglur vegna viðskipta í ýmsum löndum.

Einnig verður stefnt að lokuðum fyrirtækja- og vörubrunni, opnum fyrirtækja- og vörubrunni, þ.e. eins konar markaðstorgi á Netinu fyrir framleiðslu aðildarfyrirtækja á svæði NSA, þjónustu vegna samstarfs fyrirtækja innan NSA og loks markaðs- og þróunarvöktun.