Á MORGUN kemur út breiðskífa með tveggja manna hljómsveitinni Dip, fyrsta skífa sem þeir gera saman Jóhann Jóhannsson og Sigtryggur Baldursson. Platan sú er hljóðrituð á síðustu mánuðum þó Sigtryggur sé búsettur vestan Atlantsála en Jóhann uppi á Íslandi.

SKEMMTILEG ALVARA

Á MORGUN kemur út breiðskífa með tveggja manna hljómsveitinni Dip, fyrsta skífa sem þeir gera saman Jóhann Jóhannsson og Sigtryggur Baldursson. Platan sú er hljóðrituð á síðustu mánuðum þó Sigtryggur sé búsettur vestan Atlantsála en Jóhann uppi á Íslandi. Það kemur þó ekki að sök ef marka má skífuna, og næstu vikur verða Dip-vikur á Íslandi, því ekki er bara ný skífa heldur og ný tónleikasveit sem á eftir að fara víða. Þeir Jóhann og Sigtryggur vinna verkið saman, Sigtryggur setti saman trommugrunna úti í Madison og Jóhann grunna hér heima. Ekki eru þeir á því að það hafi skapað einhver vandkvæði til vinnu að búa hvor í sinni álfunni. "Við hittumst reglulega og tókum þriggja vikna lotur heima á Íslandi," segir Jóhann, "mér fannst þetta mjög þægileg tilhögun." Sigtryggur tekur í sama streng, segir að vinnan hafi gengið bráðvel, en samskipti áttu þeir í gegnum tölvupóst og síma ef þurfa þótti. "Ekki unnum við þó hugmyndir þannig, allar vangaveltur voru útkljáðar í vinnuheimsóknum mínum hingað til Íslands," segir Sigtryggur. Ýmsir fleiri en þeir félagar koma við sögu á skífunni, að frátöldum hljóðfæraleikurunum eru fimm söngvnir gestir, Sara Guðmundsdóttir, Jón Þór Sigur rósarmaður, Margrét Kristín Blöndal, Ásgerður Júníusdóttir og Emilíana Torrini. Þeir segja að ekki hafi komið upp sú hugmynd að fá einn söngvara til að syngja allt saman, þeir hafi látið lögin ráða og valið þá rödd sem þeim þótti henta hverju sinni. "Við lögðum upp með að hafa plötuna fjölbreytta en þó með sterkan heildarsvip sem við sjáum um að skaffa," segir Sigtryggur og Jóhann tekur í sama streng, "okkar er að skapa hljóðaheiminn, en söngvararnir gefa fjölbreytni." Sigtryggur samsinnir þessu og bætir við að fyrir vikið sé platan að hans mati nógu fjölbreytt til að höfða til breiðs hóps fólks. Vinna við plötuna hófst á síðasta ári og þeir segjast hafa ætlað sér að ljúka við verkið fyrr en varð. "Það var í raun enginn ákveðinn lokadagur," segir Jóhann, "eina takmarkið var að ljúka við tíu lög og þá var komin plata." Sigtryggur segir að þeir hafi unnið vel, en verkið verið umfangsmeira en lagt var upp með. Jóhann segir og að upphaflega hafi þeir ekki séð fyrir sér að Dip yrði meira en hljóðversapparat, smám saman hafi það þó undið upp á sig og framundan að halda tónleika og hrista sig, eins og hann orðar það. Dip lék í fyrsta sinn á tónleikum sl. föstudagskvöld þegar sveitin hitaði upp fyrir Wayne Horowitz og Zony Mash. Frekari tónleikar eru fyrirhugaðir á næstunni, á þriðjudag leikur Dip á Stefnumótskvöldi og einnig eru fyrirhugaðir aukatónleikar, ef til vill í Kaffileikhúsinu, aukinheldur sem frekari spilamennska er í deiglunni. Útgáfutónleikar Dip verða síðan 16. júní í Iðnó og þá verða söngvararnir allir með, Emilíana, Sara, Magga Stína, Ásgerður og Jón Þór. Jóhann segir að sveitin sé þannig upp sett að í raun skipti ekki svo miklu hversu margir séu á sviðinu, þeir geti verið tveir eða tíu og allt þar á milli. Þeir félagar eru ekki á einu máli um hversu alvarlega þeir taki sveitina. Sigtryggur segir að þeir félagar reyni að líta á þetta sem skemmtun, en Jóhann skýtur inní að hann taki þetta mjög alvarlega. "Fyrir mér verður þetta að vera skemmtilegt til að ég geti tekið þetta alvarlega," segir Sigtryggur. Árna Matthíasson Morgunblaðið/Árni Sæberg Þægileg Dip-félagar Jóhann Jóhannsson og Sigtryggur Baldursson.