SÉRSVEIT albönsku lögreglunnar réðist í gær til inngöngu í gríska fólksflutningabifreið þar sem albanskur byssumaður, hélt farþegum og bílstjóra í gíslingu. Í árásinni var ræninginn felldur, og einnig féll grískur farþegi sem lögreglumenn skutu í misgripum. Grísk stjórnvöld hafa fordæmt aðgerðir albönsku lögreglunnar og sagt þær til marks um "virðingarleysi fyrir mannslífum".
Mannræningi felldur

Þessalóníku, Elbasan í Albaníu. Reuters, AP.

SÉRSVEIT albönsku lögreglunnar réðist í gær til inngöngu í gríska fólksflutningabifreið þar sem albanskur byssumaður, hélt farþegum og bílstjóra í gíslingu. Í árásinni var ræninginn felldur, og einnig féll grískur farþegi sem lögreglumenn skutu í misgripum. Grísk stjórnvöld hafa fordæmt aðgerðir albönsku lögreglunnar og sagt þær til marks um "virðingarleysi fyrir mannslífum".

Ræninginn, 25 ára Albani, tók bifreiðina á sitt vald á föstudagsmorgunn skammt frá flugvellinum í Þessalóníku í Grikklandi. Um borð voru um fimmtán manns. Fimm konum var sleppt fljótlega. Eftir 12 klukkustunda akstur neyddi ræninginn bílstjórann til þess að aka yfir albönsku landamærin. Lögregla fylgdi rútunni eftir. Grísk yfirvöld höfðu greitt ræningjanum sem svarar ellefu milljónir króna, sem hann hafði krafist fyrir að láta gíslana lausa, en hann stóð ekki við orð sín og hafði í hótunum.

Þegar komið var að albanska bænum Elbasan, sem er um 60 km suður af Tirana, um klukkan fimm í gærmorgunn að íslenskum tíma, neyddi lögreglan rútuna til að stoppa og skutu lögreglumenn ræningjann í gegnum framrúðu bílsins. Einn gíslanna, ungur Grikki, var skotinn þegar hann reyndi að komast út úr rútunni um leið og ræninginn hafði verið felldur. Grísk kona særðist einnig.

Ræningjanum hafði verið látinn í té farsími til að hann gæti talað við lögreglu og fjölmiðla. "Ég er ekki að gera þetta út af peningunum," var haft eftir honum. "Ég gerði þetta út af því sem þeir hafa gert mér. Ég bið ekki um mikið, bara 50 milljón drökmur ... Ég er mjög þreyttur."

AP MANNRÆNINGINN gefur lögreglumönnum fyrirmæli; einn gíslanna talar í farsíma.