LIONSKLÚBBUR Hafnarfjarðar hefur gefið meltingarsjúkdómadeild St. Jósefsspítala fullkomið tæki, sem er það fyrsta sinnar tegundar á landinu og er m.a. notað til þess að rannsaka mjólkursykurvanþol, sem finnst hjá um 5 til 10% manna í Vesturheimi. Tækið, sem er framleitt í Bandaríkjunum, heitir QuinTron Model DP Microlyzer og kostar um eina milljón króna.
St. Jósefsspítali Gjöf frá Lionsklúbbi bylting

LIONSKLÚBBUR Hafnarfjarðar hefur gefið meltingarsjúkdómadeild St. Jósefsspítala fullkomið tæki, sem er það fyrsta sinnar tegundar á landinu og er m.a. notað til þess að rannsaka mjólkursykurvanþol, sem finnst hjá um 5 til 10% manna í Vesturheimi.

Tækið, sem er framleitt í Bandaríkjunum, heitir QuinTron Model DP Microlyzer og kostar um eina milljón króna.

Ásgeir Theodórs, yfirlæknir meltingardeildar, sagði að mjólkursykurvanþol kæmi oft upp þegar verið væri að greina ýmis meltingarvandamál eins og t.d. starfrænar truflanir í meltingarvegi, sem væru mjög algengt vandamál hjá fólki á öllum aldri og þar með talið börnum, en vegna þess hversu rannsóknin er auðveld þá hentaði hún mjög vel.

"Hingað til hefur þetta verið gert með því að gefa mjólkursykur og taka síðan fjölda blóðprófa á eftir til þess að athuga sykurgildi í prófi, einnig hafa magaspeglanir verið notaðar til að rannsaka þetta, sem og sýni tekin úr smágirni," sagði Ásgeir.

Örugg rannsóknartækni

"Tækið er bylting að því leyti að þetta er örugg rannsóknartækni og áhættan af rannsókninni er engin. Þetta flýtir fyrir greiningu og er mun ódýrari rannsókn en þær sem notaðar hafa verið hingað til. Einnig má með tækninni mæla leiðni, þ.e. hversu langan tíma það tekur fyrir fæðu að fara í gegnum meltingarveginn, þá má kanna vanþol fyrir ýmsum öðrum sykurtegundum, sem og óeðlilegan bakteríuvöxt í þörmum."

Tekið í notkun á næstu dögum

Umfang sérfræðiþjónustu í meltingarsjúkdómum við St. Jósefsspítala hefur aukist jafnt og þétt undanfarin ár, en við deildina starfa nú níu manns, þ.e. læknar, hjúkrunarfræðingar og aðstoðarfólk. Tækið sem deildinni var fært að gjöf mun auka enn frekar á getu hennar til rannsókna á sviði meltingarsjúkdóma, en auk maga- og ristilspeglana hefur deildin gert rannsóknir á sviði lífeðlis- og lífefnafræði.

Að sögn Ásgeirs verður tækið tekið í notkun á næstu dögum. Hann sagði að mjög mikil reynsla væri af tækjunum erlendis frá og deildin hefði oft reynt að fá þau hingað til lands, en það hefði ekki tekist fyrr en nú að Lionsklúbburinn færði spítalanum tækið að gjöf.

Morgunblaðið/Þorkell GUÐMUNDUR M. Kristinsson, formaður Lions-klúbbs Hafnarfjarðar, (t.v.) afhendir Árna Sverrissynin, framkvæmdastjóra St. Jósefsspítala, rannsóknatæki að gjöf.