HAUKUR Ingibergsson, skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu og formaður íslensku 2000 nefndarinnar, á sæti í stjórnarnefnd Upplýsingamiðstöðvar Sameinuðu þjóðanna um 2000 vandann. Hann sagði að markmið nefndarinnar, sem var sett á laggirnar í febrúar síðastliðnum, væri í grófum dráttum að reyna að fá heildaryfirsýn yfir vandann og aðstoða þá sem þyrftu á aðstoð að halda.
Íslendingar eiga sæti í nefnd Sameinuðu þjóðanna um 2000 vandann Alþjóðleg könnun um 2000 vandann

HAUKUR Ingibergsson, skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu og formaður íslensku 2000 nefndarinnar, á sæti í stjórnarnefnd Upplýsingamiðstöðvar Sameinuðu þjóðanna um 2000 vandann. Hann sagði að markmið nefndarinnar, sem var sett á laggirnar í febrúar síðastliðnum, væri í grófum dráttum að reyna að fá heildaryfirsýn yfir vandann og aðstoða þá sem þyrftu á aðstoð að halda.

Þetta er m.a. gert með því að hvetja til og styðja aðgerðir einstakra ríkja, svæða og atvinnugreina vegna 2000 vandans og með því að miðla upplýsingum um stöðu ríkja og atvinnugreina varðandi lausn á 2000 vandanum og hvetja til gerðar viðlagaáætlana.

Ísland fulltrúi smáþjóða

Haukur sagði að Íslendingar væru fulltrúar smáþjóðanna í nefndinni, en auk Íslands eiga Pakistan, Filippseyjar, Marokkó, Bandaríkin, Holland, Mexíkó, Japan, Bretland, Chile, Kórea og Búlgaría, fulltrúa í nefndinni. Hann sagði að mesta vinnan færi fram á skrifstofu nefndarinnar í Washington en tæknin, þ.e. tölvupóstur, gerði honum kleift að vinna sína vinnu hér og því væri lítið um ferðalög.

Að sögn Hauks var eitt af fyrstu verkefnum Upplýsingamiðstöðvarinnar að reyna að byggja upp tengsl við sem flest ríki og athuga hvort verið væri að takast á við vandann með réttum hætti. Alls hafa 155 ríki skipað sérstakan tengslamann vegna vandans og fara samskipti nefndarinnar við einstök ríki nú einkum í gegnum þá.

Þróunarlöndin standa verst að vígi

"Við höfum reynt að einbeita okkur frekar að þróunarlöndunum og þeim sem við vitum að minna er komið af stað hjá," sagði Haukur. "Það eru þróunarlöndin og lönd sem standa illa efnahagslega eins og austantjaldslöndin og Asíulöndin, sem standa verst að vígi."

Haukur sagði að þessa daga væri í fyrsta skipti verið að framkvæma alþjóðlega könnun um vandann

"Við erum nákvæmlega þessa dagana að láta fara fram mat á samræmdu formi hjá löndum heimsins og það verður reynt að ná því saman og vinna eitthvað upp úr því fyrir fund sem haldinn verður í New York upp úr miðjum júní."

"Á fundinn í júní verður reynt að fá alla þá sem leiða starfið í kringum 2000 vandann í sínum þjóðfélögum og eins sérfræðinga frá alþjóðastofnunum. Stefnt er að því að á fundinum verði greint frá því hvernig ástandið er, en það er alveg ljóst að í lok ársins munu koma upp einhver vandamál því ýmsir verða ekki búnir með það sem þeir hefðu átt að vera búnir með."

Upplýsingamiðstöð Sameinuðu þjóðanna hefur sett upp upplýsingavef, sem auk þess að vera upplýsingabrunnur um vandann hefur að geyma tengingar inn á vefi ríkja og stofnana. Netslóðin er: http: //www.iy2kcc.org.

Haukur Ingibergsson