Mörgum spurningum er ósvarað "VIÐ hjónin erum nú ekki mjög spennt með það að vegstæðið um dalinn verði valið," sagði Ástþór Jóhannsson, ábúandi í Dal í Miklaholtshreppi, en Vatnaheiðarvegur mun liggja þvert yfir lendur hans og Katrínar Ævarsdóttur eiginkonu hans.
Mörgum spurningum er ósvarað

"VIÐ hjónin erum nú ekki mjög spennt með það að vegstæðið um dalinn verði valið," sagði Ástþór Jóhannsson, ábúandi í Dal í Miklaholtshreppi, en Vatnaheiðarvegur mun liggja þvert yfir lendur hans og Katrínar Ævarsdóttur eiginkonu hans. Þau Ástþór og Katrín keyptu jörðina í fyrrasumar og voru vart búin að hreiðra um sig er starfsmenn Vegagerðarinnar hófu störf við lagningu markalínu vegstæðisins.

Ástþór sagðist skilja mjög þörf íbúa á Snæfellsnesi og annara íbúa landsins fyrir veg- og samgöngubótum, en mörgum spurningum væri þó ósvarað, t.d. varðandi aðra valkosti heldur en Vatnaheiðarveg.

"Varðandi það að Vatnaheiðarleiðin sé ódýrari kostur þá er það bara eins og hver annar útreikningur. Huglægt mat á hvers virði ósnert land er í framtíðinni hlýtur að vakna nú við aldamótin. Hvernig höfum við Íslendingar gengið um landið okkar síðastliðið árþúsund. Við upphaf nýs árþúsunds eru forsendur allt aðrar. Ég tel að nýr vegur um Dufgusdal einn sér muni ekki gera útslagið á bústetuþróun til eða frá á Nesinu. Að minnsta kosti ekki úr þessu. Þjóðfélagsþróunin í dag gerir kröfu til fleiri þátta og þá vaknar jafnvel sú spurning hverjir eru að hagnast meira á þessum vegi, almenningur, eða þeir sem hafa eingöngu hag af því að koma burtu fiski af svæðinu?

Nú eru tímar að breytast. Ósnortin landsvæði eru orðin verðmæt fyrir það eitt að vera ósnert. Í því liggja verðmætin, að mannshöndin er ekki búin að setja mark sitt á þau um alla eilífð. Slíkum svæðum fækkar ört og á sama tíma sækist fólk í auknum mæli eftir að njóta þeirra sem útivistarsvæða. Með lagningu vegar um Dufgusdal er ekki aðeins spillt einu sérstæðasta dalverpi á sunnanverðu Snæfellsnesi auk annarra sérstæðra jarðfræðimyndana norðar á heiðinni, heldur dregur sú framkvæmd úr verðmætum alls svæðisins. Því með veglagningu hverfur eitt síðasta aðgengilega svæði Nessins á skilgreindu láglendi, sem enn er að mestu ósnert af mannavöldum. Eyðilagt um alla framtíð sem útivistarsvæði, vegna umferðar. Útivistarmöguleikar dalsins, svo sem silungsveiði, eða útreiðar verða að engu gerðar vegna legu vegarins með þungri umferð, víðast í aðeins fáeinum armlengdum frá efri hluta Straumfjarðarár. Þá fara undir veginn grösugustu hagarnir í upprekstrarlandi sveitarinnar þar sem fé hefur hafst við yfir sumartímann.

Varðandi þau rök, að vetrarleiðin sé greiðfærari um Vatnaheiði heldur en Kerlingarskarð þá hafa farið fram litlar rannsóknir á snjóalögum þarna og því óvíst með öllu hvort leiðin upp dalinn sé á nokkurn hátt snjóléttari þegar skefur af fjöllunum á báða vegu niður í hlíðarnar undir vegstæðinu nýja. Það verður varla minna heldur en á endurbættum og uppbyggðum Kerlingarskarðsvegi, enda vísar gróðurfar í Dufgusdal til snjóþyngsla á vetrum. Þá er óbærilegt að sjá stærsta og fallegasta hluta lands okkar, eyðilagðan með fyrirhuguðum framkvæmdum sem að auki setur skorður á allar hugsanlegar framtíðaráætlanir okkar um hagnýtingu dalsins, sem fyrst og síðast ganga út á að það sem gert verði samrýmist þeim kröfum sem telst til skynsamlegrar landnýtingar í takt við nútímann. Því viljum við að gamla vegstæðið yfir Kerlingarskarð verði endurunnið í stað þess að ryðja fyrir nýju. Við erum eþss fullviss að íbúarnir á Nesinu og aðrir gestir svæðisins mundu fagna þeim málalokum í framtíðinni, ef sú verður raunin," sagði Ástþór.