ÖLGERÐIN Egill Skallagrímsson ehf. hefur fært út kvíarnar og keypt fyrirtækið Catco hf., sem staðsett er í Borgarnesi, af Árna Helgasyni og Þórhalli Guðmundssyni, en Catco, sem fæst við framleiðslu á sterkum vínum, hefur m.a. framleitt Íslenskt brennivín.
Ölgerðin Egill Skallagrímsson ehf. kaupir Catco hf. Ölgerðin færir

út kvíarnar

ÖLGERÐIN Egill Skallagrímsson ehf. hefur fært út kvíarnar og keypt fyrirtækið Catco hf., sem staðsett er í Borgarnesi, af Árna Helgasyni og Þórhalli Guðmundssyni, en Catco, sem fæst við framleiðslu á sterkum vínum, hefur m.a. framleitt Íslenskt brennivín.

Jón Snorri Snorrason, framkvæmdastjóri Ölgerðarinnar, sagði í samtali við Morgunblaðið að rétt fyrir páska hefði Ölgerðinni verið boðið að kaupa Catco og að síðan þá hefðu hlutirnir gerst hratt, en Jón Snorri vildi ekki gefa upp hvert kaupverðið var.

Auk þess að taka yfir rekstur Catco, mun Ölgerðin yfirtaka allar eignir, öll framleiðslutæki og vörumerki fyrirtækisins. Þau vörumerki sem um ræðir eru Íslenskt brennivín, Hvannarótarbrennivín, Jöklakrap, Eldurís vodka, Tindavodka, Dillon gin og Kveldúlfur, sem er Hot'n'Sweet lakkrísstaup. Auk þessa mun Ölgerðin hafa framleiðsluleyfi á Pölstar vodka hér á landi, en Árni Helgason mun alfarið snúa sér að dreifingu Pölstar á erlendum mörkuðum.

Fellur vel að sölu- og dreifingarkerfinu

Jón Snorri sagði að innanlandsmarkaður væri helsta markaðssvæði þessarar framleiðsluvöru, en að Íslenskt brennivín, Dillons gin og Eldurís vodki hefði verið flutt út til Færeyja, sem og að ýmsar tegundir væru seldar í fríhöfnum og farskipum.

"Þessi rekstur fellur vel að sölu- og dreifingarkerfi okkar á veitingahús landsins," sagði Jón Snorri. "Þetta eru vörur sem fara að stórum hluta á þessa staði, þannig að við fáum betri nýtingu á okkar sölu- og dreifingarkerfi og það gerir okkur kannski öflugri í að bjóða veitingamönnum heildarlausnir, þar sem þeir geta fengið gosið, blanddrykki, bjórinn og helstu áfengisdrykki eins og vodka og gin hjá okkur."

Aðspurður um það hvort Ölgerðin hygðist færa enn frekar út kvíarnar, sagði Jón Snorri: "Það er auðvitað ekkert ólíklegt, fyrst við erum komnir með sterk vín, að við athugum hvort þörf sé á því að bæta við einhverju í þeirri línu sem við erum nú komnir með."

Að sögn Jóns Snorra verður fyrirtækið áfram rekið í Borgarnesi, en fyrirtækið Engjaás ehf. mun áfram sjá um framleiðslu afurðanna í verktöku, en um 6 til 7 manns hafa unnið við hana þar.