Ívar Ólafsson "Vinnan göfgar manninn." Þessi orð hafa mér alltaf fundist eiga einkar vel við vin minn Ívar Ólafsson, því engan mann hef ég þekkt vinnusamari eða göfugri. Þegar ég hugsa til baka finnst mér ótrúlegt að liðin séu rúm tuttugu ár síðan Ívar hringdi til mín og bauð mér vinnu á skrifstofu fyrirtækis síns og Jónasar Bjarnasonar, Járnsmiðjunnar Varma. Ég þurfti ekki að hugsa mig tvisvar um, heldur þáði boðið og hef aldrei séð eftir því. Betri vinnuveitendur er ekki hægt að hugsa sér. Það er dýrmætt, þegar maður er að vinna úti frá ungum börnum að geta vandræðalaust fengið frí hvenær sem er til þess að vera heima, ef börnin eru veik, eru í fríi frá leikskóla eða skóla, jafnvel tekið sér gott jóla- og páskafrí til þess að vera með fjölskyldunni. Þegar mín börn fengu þessar venjulegu umgangspestir og ég var heima að gæta þeirra, kom það oft fyrir að Ívar hringdi til að spyrja um heilsufarið og sagði þá gjarnan, láttu smáfólkið sitja fyrir, annað getur bara beðið. Áhugi hans fyrir börnunum mínum var ómetanlegur, hann fylgdist með þeim og hafði áhuga fyrir skólagöngu þeirra og framtíðaráformum.

Ég og mín fjölskylda eigum Ívari ótal margt að þakka, marga hlutina smíðaði hann fyrir okkur og er ég stolt yfir þeim listaverkum sem við eigum eftir hann.

Þótt Ívar væri vinnusamur maður, gafst honum tækifæri til að taka sér frí og ferðast með fjölskyldu sinni á húsbílnum þeirra bæði hérlendis og erlendis, hann naut þessara ferða og hafði dálæti á fallegu umhverfi og náttúruperlum. Úr þessum ferðum kom Ívar færandi hendi og gleymdi aldrei börnunum.

Nú er Ívar farinn í sitt langa ferðalag þar sem örugglega blasir við honum fallegt umhverfi og vel er tekið á móti honum í eilífri birtu og sólskini. Erfiður vetur er að baki, sumarið er komið og sólin mun senda okkur geisla sína.

Kom til að lífga, fjörga, gleðja, fæða

og frelsa, leysa, hugga, sefa, græða.

Í brosi þínu brotnar dauðans vigur,

í blíðu þinni kyssir trúna sigur.

(M. Joch.) Við minnumst Ívars Ólafssonar með virðingu, söknuði og þakklæti. Valgerði, börnum, tengdasyni og öðrum ættingjum sendum við innilegar samúðarkveðjur.

Dóra Gunnarsdóttir og fjölskylda.