Svava Eyþórsdóttir Það var um miðjan ágúst 1985 að Svava hóf störf á skurðstofum St. Jósefsspítala, Landakoti. Hún var ekki há í loftinu, en snör í snúningum og ætíð var stutt í brosið. Hún féll því mjög vel inn í það litla samfélag sem samanstóð af starfsfólki skurðstofunnar. Hún blés ekki í lúðra um sín mál og því kom það okkur á óvart að sjá Svövu hitta systur sínu Ritu í beinni útsendingu í sjónvarpinu, og litla samfélagið gladdist með henni.

Við héldum að mestu hópinn er Landakoti var lokað og saman fórum við inn í stærra samfélag á skurðstofum Sjúkrahúss Reykjavíkur.

Svava var fámál um sína hagi, nema þegar um Svövu yngri var að ræða, þá ljómaði hún öll. Svava yngri var hennar heimur og er sonur hennar fæddist þá reis sólin hæst. Svava var óspör á að sýna okkur myndir og því gladdi það okkur að vita, að Svövu eldri auðnaðist að dvelja í mánuð í Bandaríkjunum, umvafin ástúð Svövu yngri og fjölskyldu.

Við samstarfsfólk Svövu af Sjúkrahúsi Reykjavíkur vottum aðstandendum okkar dýpstu samúð.

Samstarfsfólk.