Svana E. Sveinsdóttir Er sárasta sorg okkur mætir

og söknuður huga vorn grætir

þá líður sem leiftur af skýjum

ljósgeisli af minningum hlýjum.

(Hallgr. J. Hallgr.) Í dag kveðjum við elsku ömmu sem var okkur öllum svo kær. Það var alltaf tilhlökkunarefni að fara í bíltúr til Keflavíkur og fá pönnukökur hjá ömmu en þær voru alltaf tilbúnar þegar við mættum á staðinn. Hún amma var alltaf hress og kát og sá yngsti okkar kallaði hana alltaf "drottninguna" enda voru það orð að sönnu því amma okkar var alltaf svo fín og vel til höfð.

Við eigum allir okkar sérstöku minningar um ömmu hver á sinn hátt sem við geymum með okkur. Hún er eina amman sem við kynntumst og okkur þótti afar vænt um hana. Amma og afi voru alltaf hjá okkur á jólunum og því er tómlegt að hugsa til þess að á næstu jólum verður sætið hennar autt. Við biðjum guð að styrkja afa sem nú syrgir sinn lífsförunaut en þau höfðu verið gift í fimmtíu og fjögur ár.

Elsku amma, við þökkum þér fyrir allar góðu stundirnar.

Árni Pétur, Helgi Már

og Steinar Páll.